Innlent

Ökuníðingurinn veittist að lögreglu eftir að hafa valdið stórhættu á Vesturlandsvegi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi í Mosfellsbæ um hádegisbil.
Frá vettvangi í Mosfellsbæ um hádegisbil. Lögreglan
Ökuníðingurinn sem stöðvaður var með naglamottu í Mosfellsbæ á tólfta tímanum í dag hafði mælst á rúmlega 200 km/klst hraða á Vesturlandsvegi við Hvalfjarðargöng. Vísir greindi frá málinu fyrr í dag

Lögregla segir ökumanninn ekki hafa virt ítrekuð stöðvunarmerki lögreglu. Var hann talinn valda mikilli hættu.

Leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst á löngum köflum á Vesturlandsvegi en lægri á kaflanum um Kjalarnes og svo þegar komið er inn í Mosfellsbæ. Hann var því á margföldum leyfilegum hámarkshraða.

Það var í Mosfellsbæ þar sem lögreglumenn af höfuðborgarsvæðinu komu kollegum sínum á Vesturlandi til aðstoðar og lögðu naglamottu á veginn við hringtorgið í botni Mosfellsbæjar við afleggjarann að Álafossi.

Ökumaðurinn náði að aka að hringtorginu við Olísbensínstöðina en komst ekki lengra. Í tilkynningu frá lögreglu segir að hann hafi í framhaldi veist að lögreglumennum og verið handtekinn.

Málið er sagt í rannsókn og ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.


Tengdar fréttir

För ökuníðings stöðvuð í Mosfellsbæ

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu í Mosfellsbæ á tólfta tímanum í dag þar sem von var á ökumanni ofan af Akranesi sem ók bíl sínum langt umfram löglegan hámarkshraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×