Innlent

Norðan­menn geta búist við þrettán stiga frosti

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Akureyri. Veðurfræðingur á vakt segir að það verði mjög kalt aðfaranótt sunnudagsins.
Frá Akureyri. Veðurfræðingur á vakt segir að það verði mjög kalt aðfaranótt sunnudagsins. vísir/vilhelm
Svo virðist sem að vetur er í nánd norðan heiða, en Veðurstofan spáir þrettán stiga frosti á Akureyri og við Mývatn fyrir hádegi á sunnudaginn næsta.

Veðurfræðingur á vakt segir að það verði mjög kalt aðfaranótt sunnudagsins. Það muni lygna og létta til sem verður til þess að frostið fer niður.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að norðaust- eða austlægar áttir verði ríkjandi á landinu fram yfir helgi með kólnandi veðri og rigningu á láglendi. Spáð er snjókomu til fjalla á austurhluta landsins en annars bjartviðri.

Veðurstofan
Það gengur í norðaustan 10 til 18 metrum á sekúndu á morgun, en að mestu hægari sunnan og suðaustantil. Víða rigning og snjókoma til fjalla, jafnvel talsverð úrkoma á köflum um landið norðaustanvert. Bjart með köflum suðvestantil, með hita á bilinu tvö til tíu stig, hlýjast syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Norðaustan 8-13 m/s með dálítilli rigningu eða slyddu N- og A-til og snjókomu til fjalla, annars bjart með köflum. Hægari um kvöldið. Hiti 1 til 7 stig. 

Á laugardag og sunnudag: Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, skýjað með köflum og lítilsháttar væta í flestum landshlutum. Vægt frost NA-lands, en upp í 6 stig S- og V-til. 

Á mánudag: Stíf austlæg átt og lítilsháttar rigning, jafnvel slydda austast, en bjart með köflum NV- og V-til. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag: Austlæg átt og rigning um landið S-vert, en þurrt fyrir norðan. Hlýnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×