Tímabilið fer ekki vel af stað hjá Golden State Warriors í NBA-deildinni og í gær steinlá liðið gegn Oklahoma City Thunder sem var að vinna sinn fyrsta leik í vetur.
Stephen Curry var skástur í liði Golden State með 23 stig en liðsfélagar hans hittu aðeins úr 23 skotum af 74. Liðið hefur nú tapað báðum sínum leikjum í vetur.
„Þetta er óþolandi. Það hafa allir gengið í gegnum svona tíma fyrir utan Tim Duncan en það breytir því ekki að þetta er óþolandi,“ sagði Draymond Green, leikmaður Warriors, en hans lið var undir 70-37 í hálfleik.
Anthony Davis skoraði 29 stig og tók 14 fráköst í stórsigri LA Lakers á Charlotte. LeBron James bætti við 20 stigum og 12 stoðsendingum. Dwight Howard minnti líka á sig með 16 stigum og 10 fráköstum.
Úrslit:
LA Lakers-Charlotte 120-101
Chicago-Toronto 84-108
Indiana-Cleveland 99-110
New Orleans-Houston 123-126
Utah-Sacramento 113-81
San Antonio-Washington 124-122
Phoenix-LA Clippers 130-122
Oklahoma-Golden State 120-92
Memphis-Brooklyn 134-133
Dallas-Portland 119-121
Minnesota-Miami 116-109

