Innlent

Kynna frumvarp um lengingu fæðingarorlofs í samráðsgátt

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Lagt er til að fæðingarorlof lengist í 12 mánuði.
Lagt er til að fæðingarorlof lengist í 12 mánuði. Fréttablaðið/Pjetur
Frumvarp félags- og barnamálaráðherra um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs hefur verið lagt fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Gerir frumvarpið ráð fyrir því að réttur foreldra lengist úr níu mánuðum í tólf.

Lenging orlofsins verður gerð í tveimur áföngum. Þannig mun einn mánuður bætast við sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig vegna barna sem eru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Sameiginlegur réttur foreldra verður hins vegar tveir mánuðir í stað þriggja.

Annar mánuður bætist svo við sjálfstæðan rétt hvors foreldris vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 2021. Þá verður réttur hvors foreldris um sig fimm mánuðir auk tveggja mánaða sem foreldrar geta skipt sín á milli.

Eru þessar tillögur í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð lífskjarasamningsins. Heildarkostnaður við fyrri áfangann er talinn nema um 1,7 milljörðum króna sem skiptist á árin 2020 og 2021. Síðari áfanginn er talinn kosta um 3,2 milljarða sem skiptast á árin 2021 og 2022.

Með fyrri áfanga breytingunum er áætlað að feður taki um 33 prósentum fleiri daga í feðraorlof en nú er. Áhrifin fyrir mæður muni hins vegar ekki koma fram fyrr en breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×