Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Fjölnir 29-30 | Nýliðarnir höfðu betur gegn Eyjamönnum

Einar Kárason skrifar
Elliði Snær Viðarsson.
Elliði Snær Viðarsson. Vísir/Daníel
Margir hefðu búist við auðveldum heimasigri þegar ÍBV tók á móti nýliðum Fjölnis. Eyjamenn í 5.sæti deildarinnar en gestirnir úr Grafarvoginum í því næst neðsta með 3 stig og höfðu ekki unnið leik síðan í 2.umferð. Heimamönnum hafði þó fatast flugið eftir frábæra byrjun á mótinu og höfðu tapað síðustu tveimur heimaleikjum, báðum með eins marks mun.

Gulklæddir Fjölnismenn settu tóninn strax í byrjun um að þeir væri ekkert fallbyssufóður með því að skora fyrstu 2 mörkin. Við þetta vöknuðu leikmenn ÍBV og svöruðu með því að skora næstu 3 mörkin. Þá tók við kafli þar sem liðin skipust bróðurlega á að taka eins marks forustu og ljóst var að þessi leikur yrði engin ganga í garðinum fyrir Eyjamenn gegn sprækum Grafarvogsmönnum.

Svona spilaðist hálfleikurinn en þegar hálfleiksbjallan fór af stað leiddu gestirnir með 15 mörkum gegn 14.

Stórt skarð var höggvið í vörn ÍBV þegar Róbert Sigurðarson fékk beint rautt spjald undir  lok fyrri hálfleiks fyrir brot á Breka Dagssyni. Varnarleikur liðsins hafði ekki verið góður fram að þessu og ljóst var að brottrekstur Róberts væri einungis til að bæta gráu ofan á svart.

Gestirnir héldu forustunni framan af í síðari hálfleiknum þrátt fyrir að heimamenn önduðu í hálsmálið á þeim en juku forskotið hægt og rólega eftir því sem fyrstu 10 mínútum hálfleiksins leið. Þá tók hinsvegar við kafli þar sem Eyjamenn virtust ætla að snúa leiknum sér í dag en sveifla úr stöðunni 16-19 í 22-21 tók ekki nema 5 mínútur. Hvítklæddir komnir með blóð á tennurnar og virtust til alls líklegir.

Blóðið hefur hinsvegar ekki bragðast vel því við þetta vöknuðu Fjölnismenn á ný, tóku forustuna og stýrðu leiknum. Mest áttu þeir 4 mörk á ÍBV, þegar ekki nema um 3 mínútur eftir lifðu leiks. Eyjamenn spíttu í lófana og reyndu eins og þeir gátu til að ná stigi út úr leiknum. Þrátt fyrir að hafa skorað síðustu 3 mörk leiksins náðu þeir ekki að nýta loka sóknina þegar skot Gabríels Martinez Róbertssonar hafnaði í stönginni, sekúndum áður en bjallað fór af stað og leiknum lokið. 

Leiknum lauk því með sterkum Fjölnissigri í Vestmannaeyjum og heimamenn í ÍBV því tapað þremur heimaleikjum í röð með eins marks mun.

Af hverju vann Fjölnir?

Leikmenn gestanna mættu óhræddir til leiks og staðráðnir í að láta ekki vaða yfir sig. Leikur ÍBV virtist í molum og Fjölnismenn nýttu sér það að bestu getu. Sprækir og baráttuglaðir leiddu þeir bróðurpart leiksins og áttu sigurinn fyllilega skilið.

Hverjir stóðu upp úr?

Markaskorun beggja liða dreifðist vel á hópinn en Hákon Daði Styrmisson skoraði 6 mörk í liði ÍBV, rétt eins og Brynjar Loftsson í liði gestanna.

Bjarki Snær Jónsson varði 11 skot í marki Fjölnis og átti fínan leik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍBV var ekki til fyrirmyndar og batnaði hann ekki þegar Róbert fékk reisupassann undir lok fyrri hálfleiks. Þó við minnumst fyrst á varnarleikinn þá var sóknarleikurinn einnig ábótavanur og margir lykilleikmenn ekki að sýna sínar bestu hliðar. Margir boltar töpuðust klaufalega og illa gekk að stíga á kúplinguna og skipta upp um gír. Kristinn Guðmundsson talaði um doða yfir leik síns liðs sem kannski er besta lýsingin á leik liðsins.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn etja kappi við ÍR’inga á sunnudaginn næstkomandi á meðan Fjölnismenn fá Mosfellinga í Aftureldingu í heimsókn.

Kári Garðarsson þjálfari Fjölnisvísir/vilhelm
Kári: Frábær frammistaða hjá drengjunum

„Þetta er kannski ekki stór sigur ef hann er bara eitt mark en þetta er stór sigur á þann mælikvarða að við vorum að spila á móti frábæru liði og erum nýliðar í deildinni,” sagði Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis, eftir sigurinn á ÍBV í Vestmannaeyjum.

„Það er ekki oft sem að nýliðar koma hingað og vinna svo þetta er auðvitað frábær frammistaða hjá drengjunum. Það má alveg segja að Eyjamenn voru ekki alveg á sínu beittasta afli í dag en það er hinsvegar þannig að þegar þau moment koma þá verðuru að nýta það og klára stigin 2. Við höfum lika verið í svona leik eins og á móti FH. Spiluðum hann vel í 50 mínútur en löbbum útaf með eins marks tap þannig að það er mjög gott að klára þetta.”

Fjölnismenn voru ívið sterkari bróðurpart leiksins en voru nálægt því að missa leikinn niður í jafntefli á lokasekúndunum.

„Á þeim tíma erum við 4 mörkum yfir og 3 mínútur eftir. Þá förum við með dálítið af færum og stytta sóknirnar okkar. Förum svo með færin, til dæmis í síðustu sókninni okkar. Mjög gott færi sem hefði mátt detta inn. Þá hefði maður bara verið rólegur í síðustu sókninni en í staðinn fá þeir að eiga síðustu 10 sekúndurnar og fá mjög gott færi sem betur fer fór framhjá.”

Sigurinn á Eyjamönnum var fyrsti sigur liðsins frá því í 2. umferð, og annar sigur liðsins í deildinni. Kári var sammála um að þessi leikur yrði gott veganesti fyrir framhaldið.

„Fimmta stigið. Þetta er auðvitað þannig að við erum í þettum pakka á móti þessum betri liðum sem öllum var spáð í efri hlutanum þannig að stig á þessum stað í deildinni er extra dýrmætt. Kannski skipta þeir helmingi meira máli leikirnir á móti liðunum sem er spáð í kringum okkur þannig að þessi stig eru mjög mikilvæg. En það er langt í land ennþá að við getum farið að horfa eitthvað fram á það að halda liðinu uppi. Það þarf meira til.”

„Það má segja mínu liði til hróss að við höfum sýnt nokkuð góðar frammistöður á köflum í deildinni. Ég ætla ekkert að fara að týna það til en það er bara þannig að við höfum annaðhvort innan leikjanna eða í heilum leikjum bara spilað vel. Stundum átt eitthvað skilið og stundum tekið eitthvað út úr hlutunum. Það er þannig með svona ungt lið að það má búast við að þetta sé svona upp og niður. Það var þannig að hluta til í dag,” sagði Kári að lokum.

Kristinn var ekki sáttur að leik loknumvísir/bára
Kristinn: Vorum sjálfum okkur verstir

Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, var að vonum óánægður með niðurstöðuna og sagði frammistöðu liðsins hafa verið vonbrigði. „Hreint út sagt. Ég ætla ekkert að taka af Fjölnisstrákunum en þetta er hörmungar frammistaða. Handbolti er það alltaf [sveiflukenndur] en það er svo erfitt að segja til um hvað veldur því að við séum svona taktlausir og flatir. Eigum bara virkilega erfitt með að sprengja okkur út úr þessu. Það er eitthvað sem við þjálfararnir þurfum að skoða.”

Þrátt fyrir góða kafla náði liðið sér aldrei á flug gegn nýliðunum.

„Þessi frammistaða, fyrir framan okkar áhorfendur, er bara alls ekki nógu góð. Við þurfum virkilega að fara inn í okkur sjálfa sem íþróttamenn og ræða opinskátt um hvað veldur því að við erum að fara illa með boltann, henda honum frá okkur einhvernveginn. Asi og læti. Nýtum ekki færin sem við fáum. Höfuðið í bringuna í hvert einasta skipti sem eitthvað gerist. Það vantar allan neista. Það er bara ofboðslega þungur doði yfir þessu.”

Eyjamenn hófu mótið vel en tapið gegn Fjölni var þriðji heimaleikurinn í röð sem tapast með einu marki.

„Við þurfum að líta inn á við og skoða hvaða þætti við getum lagað. Við getum til dæmis lagað hluti eins og kasta og grípa. Það er mjög tengt andlegu hliðinni. Við höfum séð það að leikmenn okkar kunna að kasta og grípa. Við þurfum ekkert að efast um það en þetta sýnir sig svona, þá er það höfuðið sem er að trufla. Við þurfum þá að hreinsa hugann og finna okkar styrkleika og okkar sjálfstraust aftur.”

Róbert Sigurðarson, einn öflugasti varnarmaður ÍBV, fékk beint rautt spjald í fyrri hálfleiknum og hans var saknað í þeim síðari.

„Ég sé það [atvikið] bara ekki til að geta tjáð mig um það. Það er þarna eitthvað klafs og þeir sjá þetta og ég treysti því að þeir viti hvað þeir eru að gera í þessu tilfelli. Það er lítið hægt að segja við því. Það var slæmt að missa hann út og það sýndi sig að við vorum í vandræðum. Við fáum á okkur 30 mörk. Ekki það að varnarleikurinn hafi verið stórkostlegur áður en hann fékk rautt en við erum hálfu skrefi á eftir í alveg ofboðslega mörgum hlutum. Við færðum þeim þennan leik á silfurfati og þeir nýttu sér það.

Þrátt fyrir að liðið hafi alls ekki átt sinn besta leik voru þeir nálægt því að jafna leikinn undir lokin en skot Gabríels Martinez Róbertssonar hafnaði í stöng og þaðan fór boltinn afturfyrir.

„Það harmónar mjög vel við okkar frammistöðu í leiknum. Við vorum sjálfum okkur verstir í leiknum í dag og af því þurfum við að læra,” sagði Kristinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira