Umfjöllun og viðtöl: Fram - KA 25-27 | KA hafði betur í Safamýrinni

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Daníel Matthíasson í færi.
Daníel Matthíasson í færi. vísir/daníel
KA vann góðan tveggja marka sigur á Fram í Safamýrinni í dag, 25-27. KA náði snemma góðri forystu sem þeir héldu út leikinn. 

Gestirnir að Norðan náðu fljótlega undirtökunum á leiknum og tóku forystuna snemma leiks. Fram spilaði virkilega slakan handbolta í fyrri hálfleik þar sem þeir gerðu sig seka um mikið af tæknifeilum og voru með alls 9 tapaða bolta. KA komst í fjögurra marka forystu um miðjan fyrri hálfleik og hélt Fram í góðri fjarlægð til hálfleiks, enn fjögur mörku skyldu þá liðin að, 10-14. 

Fram mætti betur til leiks í síðari hálfleik og skoraði fyrstu þrjú mörkin. Þjálfarar KA tóku þá leikhlé og liðið náði fljótlega góðri forystu aftur sem þeir héldu út nær allan leikinn. 

Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, meiddist þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiks loka, Valtýr Már Hákonarson kom sterkur inn og varði vel á lokakaflanum þegar Fram tókst að minnka muninn niður í eitt mark. Lengra komust heimamenn ekki og KA fagnaði innilega tveimur stigum, lokatölur í Safamýrinni, 25-27

Af hverju vann KA? 

KA spilaði heilt yfir mikið betri handbolta í dag, þeir voru þéttir varnarlega sem gerði Fram erfitt fyrir svo fengu þeir góða markvörslu frá Jovan Kukobat. 

Hverjir stóðu upp úr?

Dagur Gautason var virkilega öflugur í liði KA, hann var með 5 stolna bolta og skoraði 4 mörk. Áki Egilsnes var markahæstur með 7 mörk en þurfti til þess hvorki meira né minna en 18 skot. 

Það átti enginn góðan leik í liði Fram en Þorgrímur Smári Ólafsson var þar markahæstur með 7 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Fyrst og fremst sóknarleikurinn hjá Fram, hann var átakanlegur á köflum í þessum leik. 17 tapaðir boltar segja allt sem segja þarf. 

Hvað er framundan? 

Í næstu umferð mætir Fram Stjörnunni í Garðabænum en KA menn fá FH í heimsókn norður til Akureyrar

 

Jónatan var ánægður með sína menn.Vísir/Daníel
Jónatan: Vorum með kaldari haus en Fram

„Ég er rosa glaður og mjög stoltur. Við spiluðum frábæran handbolta, það er bara þannig,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, eftir leikinn.

„Við ætluðum að reyna að fá upp vörn og hægja á Frömurunum. Varnarlega vorum við frábærir, 3-2-1 vörnin var mjög góð og Fram lenti í basli.“

„Ég er mjög ánægður með liðið mitt í dag.“

Eftir að hafa verið 14-10 yfir í hálfleik og komist mest fimm mörkum yfir í seinni hálfleik misstu KA menn leikinn aðeins niður og hefðu Framarar getað stolið stigi á loka mínútunum.

„Við komum okkur í góða stöðu í seinni hálfleik, en þeir fóru í 7-6 og þetta varð svolítið skrautlegur handbolti, mikið af töpuðum boltum á tímabili.“

„Það sem kom okkur í gegn var það sem við settum inn í leikinn, hugarfarið. Við ætluðum að hafa kaldan haus og á endanum vorum við með kaldari haus en Framararnir.“

Guðmundur Helgi sagði að töpuðu boltarnir hafi reynist Fram dýrir.vísir/daníel
Guðmundur Helgi: Vorum sjálfum okkur verstir

„Leikurinn var eins og ég bjóst við,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari KA.

„Við vorum sjálfum okkur verstir, töpuðum hræðilega mörgum boltum.“

„Við þurftum að ná upp vörn, KA er gott lið sem tekur sitt. En við vorum lélegir í dag, því miður.“

Hvað var það sem vantaði upp á í dag?

„Ómögulegt að segja. Við vorum ekki á tánum, með 10 tapaða bolta í fyrri hálfleik,“ svaraði Guðmundur.

„Seinni hálfleikur var góður, það er karakter í drengjunum og þeir gefast ekki upp en þetta var of stórt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira