Erlent

Umdeild netlög taka gildi í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AP/Mikhail Klimentyev
Ný lög varðandi internetið taka gildi í Rússlandi í dag. Lög þessi eru umdeild og gagnrýnendur þeirra segja yfirvöld landsins geta notað þau til að þagga niður í gagnrýnendum sínum. Lögin, sem bera nafnið „fullvalda internet“, gefa ríkinu vald til að takmarka umferð á netinu í Rússlandi og verður jafnvel hægt að rifta tengingu þess við umheiminn.

Ríkisstjórn Rússlands segir, samkvæmt frétt BBC, að lögin muni auka netöryggi í Rússlandi, bæði í neyðartilfellum og þegar tölvuárásir eru gerðar á Rússland. Sérfræðingar segja þó óvíst hvort að hægt verði yfir höfuð að framfylgja lögunum.



Lögin þvinga netfyrirtæki til að setja upp búnað sem greinir flæði efnis og sem geti jafnvel stýrt því. Þar að auki á allt efni að fara í gegnum vefþjóna sem ríkið sjálft rekur.

Þúsundir mótmæltu á götum Moskvu í febrúar eftir að þingið samþykkti lagafrumvarpið í fyrstu umferð. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, skrifaði undir lögin í maí.

Samkvæmt viðmælendum Moscow Times þykir ólíklegt að lögin muni breyta aðgengi netverja í fyrstu. Netfyrirtæki Rússlands hafi ekki burði til að framfylgja lögunum, að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×