Handbolti

Jafnt í fyrri leik Vals og Bregenz

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnús Óli skoraði níu mörk.
Magnús Óli skoraði níu mörk. vísir/daníel
Valur og Bregenz gerðu jafntefli, 31-31, í Austurríki í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu í kvöld. Liðin mætast aftur á morgun en hann fer einnig fram ytra. Leikurinn í dag var heimaleikur Vals.

Magnús Óli Magnússon var markahæstur Valsmanna með níu mörk. Vignir Stefánsson og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu fimm mörk hvor. Josip Juric-Grgic, sem varð Íslands- og bikarmeistari með Val 2017, skoraði átta mörk fyrir Bregenz.

Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn. Undir lok hans náði Bregenz þó góðu áhlaupi og skoraði þrjú mörk í röð. Finnur Ingi minnkaði muninn hins vegar í tvö mörk, 14-16, með síðasta marki fyrri hálfleiks.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn miklu betur og komst fjórum mörkum yfir, 22-18. Bregenz átti þá góðan kafla, jafnaði og lokamínúturnar voru æsispennandi.

Valur komst tveimur mörkum yfir, 30-28, en Bregenz skoraði tvö mörk í röð og jafnaði.

Anton Rúnarsson kom Val yfir úr vítakasti, 31-30, en Bregenz jafnaði úr vítakasti. Lokatölur 31-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×