Ljóst er að ekki verður hægt að bjarga skipinu af strandstað þar sem aðgengi er mjög erfitt og skipið byrjað að brotna niður.
Um er að ræða rúmlega tuttugu tonna fiskibát.
Ekki reyndist unnt fyrir björgunarskip að komast nálægt strandstað frá sjó sökum brims og voru björgunarsveitir þá sendar landleiðina frá norðanverðum Súgandafirði.
TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang klukkan 23:42 og hófst áhöfn hennar þegar handa við að bjarga skipverjunum fjórum um borð í þyrluna. Á miðnætti var búið að bjarga mönnunum, heilum á húfi, um borð og voru þeir fluttir til Ísafjarðar.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við fréttastofu í nótt að björgunaraðgerðir hefðu gengið vel og að allir væru óslasaðir.