Í síðasta mánuði samþykkti bæjarstjórn Akureyrar fyrsta skrefið í vinnu sem miðar að því að breyta aðalskipulagi Akureyrar svo SS Byggi verði heimilt að byggja allt að fimm 6-11 hæða fjölbýlishús á reit á Oddeyrinni. Tillögurnar hafa mjög verið til umræðu á meðal bæjarbúa og sýnist sitt hverjum. Þannig var fullt hús á opnum kynningarfundi þar sem tillögurnar voru kynntar fyrir bæjarbúum.
Á fundi skipulagsráðs í gær voru lagðar fram til umræðu umsagnir, athugasemdir og ábendingar sem borist hafa við skipulagsvinnuna. Alls bárust 35 umsagnir, þar á meðal frá Isavia og Hafnasamlagi Norðurlands líkt og Vísir hefur áður greint frá.

Í ljósi þess telur Skipulagsstofnun mikilvægt að íbúum og öðrum hagsmunaaðilum sé gert kleift að fylgjast með og koma að mótun skipulagstillögunnar á vinnslustigi hennar. Þannig hefði verið rétt að setja fram ítarlega kynningar- og samráðsáætlun um slíkt samráð í skipulagslýsingunni sem samþykkt var af bæjarstjórn.
Minjastofnun vill ekki háhýsi á reitnum
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að landnotkun reitsins sem um ræðir verði breitt úr blandaðri byggð í íbúðabyggð. Stofnunin leggst þó alfarið gegn hugmyndum um sex til ellefu hæða háhýsi, aftan við hin friðlýstu Gránufélagshús og í nágrenni við gamla og fíngerða byggð á Oddeyri.Í bókun sem samþykkt var á fundi skipulagsráðs í gær segir að með vísun til innkominna umsagna, athugasemda og ábendinga sé ekki rétt að byggja eins háa byggð og fram kom í fyrirliggjandi lýsingu skipulagsbreytingarinnar.
Var Pétri Inga Haraldssyni, sviðsstjóra skipulagssviðs Akureyrarbæjar, jafnframt falið að leggja fram tillögur með fleiri sviðsmyndum mögulegrar uppbyggingar á svæðinu en þeirri sem kynnt hefur verið. Í samtali við Vísi segir Pétur Ingi að sú vinna fari nú af stað.