Frosti er í sambandi með Helgu Gabríelu Sigurðar og eiga þau saman einn þriggja ára dreng sem var skýrður í höfuðið á föður Frosta. Þegar Frosti var rúmlega tvítugur missti hann föður sinn í hræðilegu bílslysi. Hann segist vera mjög þakklátur að hafa geta skírt son sinn í höfuðið á honum og varla líður sá dagur þar sem hann hugsar ekki um pabba sinn.
„Þetta var auðvitað bara rosalegt áfall. Þetta er eitthvað sem ekki er hægt að lýsa með orðum því þetta gerist svo óvænt,“ segir Frosti og heldur áfram.
Hann segist ekki hafa gert sér grein fyrir því að þarna væri eitthvað sem hann varð að gera upp.
„Ég fer reglulega til ráðgjafa og það er ekki langt síðan að þetta kom til tals þar. Maður er því ennþá að vinna úr þessu. Það er enginn skóli sem kennir manni að taka á svona. Maður heldur bara í góðu minningarnar og er þakklátur fyrir þann tíma sem maður fékk með viðkomandi.“
Í þættinum ræðir Frosti einnig um Mínustímann skrautlega, hvernig það sé að vera mikið á milli tannanna á fólki fyrir skoðanir sínar, Harmageddon tímann og pararáðgjöf sem hann fór í með Mána, þegar hann tók ákvörðun á einu augabragði að hætta borða kjöt, föðurhlutverkið, um samband sitt við Helgu Gabríelu og margt fleira.