Handbolti

Yfirlýsing frá Guðmundi Helga: „Þessi ákvörðun kom mér á óvart“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur var á sínu fjórða tímabili hjá Fram.
Guðmundur var á sínu fjórða tímabili hjá Fram. vísir/daníel
Guðmundur Helgi Pálsson, sem var látinn fara sem þjálfari karlaliðs Fram í handbolta í gær, hefur sent frá sér yfirlýsingu. Þar þakkar hann Frömurum fyrir samstarfið en segir að uppsögnin hafi komið sér á óvart.

„Mig langar að þakka núverandi og fyrrverandi leikmönnum Fram sem og stuðningsfólki fyrir samstarfið síðustu ár. Þó að þessi ákvörðun hafi komið mér á óvart, þá heldur handboltalífið áfram. Þetta hafa verið mjög athyglisverð og skemmtileg tímabil sem hafa oft kostað blóð svita og tár, ég hef lagt mig 100% fram í verkefnið og geng stoltur frá því,“ segir Guðmundur.

„Þessi ár hafa verið mjög lærdómsrík og gefandi og ég hef lært mikið af því að vinna með öllu því góða fólki sem er í kringum Fram. Vonandi er þetta gott skref fyrir liðið og leikmenn.“

Guðmundur tók við Fram sumarið 2016 og á fyrsta tímabilinu undir hans stjórn komst Fram í undanúrslit úrslitakeppninnar eftir ævintýralegan sigur á Haukum í 8-liða úrslitunum.

Tímabilið 2017-18 komst Fram í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir ÍBV.

Guðmundur stýrði Fram í síðasta sinn þegar liðið tapaði fyrir FH, 26-36, í Safamýrinni á sunnudaginn var.

Halldór Sigfússon tekur við Fram af Guðmundi. Fram er í 9. sæti Olís-deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×