Handbolti

Sportpakkinn: Lag fyrir ÍR að vinna Hauka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukar hafa unnið alla útileiki sína í vetur.
Haukar hafa unnið alla útileiki sína í vetur. vísir/bára
Topplið Hauka sækir ÍR heim í stórleik 11. umferðar Olís-deildar karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Halldór Sigfússon, einn sérfræðinga Seinni bylgjunnar, segir að ÍR-ingar geti gert Haukum grikk í Austurberginu í kvöld.

„Þetta er mikið próf fyrir þá í kvöld gegn Haukum. En þeim hefur gengið ágætlega með þá í Austurberginu undanfarin ár. Ég veit að ef það er einhver staður sem Gunni Magg [þjálfari Hauka] er hræddur að fara á er það Breiðholtið,“ sagði Halldór í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

Halldór á von á spennandi leik í Austurberginu í kvöld.

„Mér finnst ÍR hafa verið góðir í síðustu leikjum. Þetta verður mjög áhugaverður leikur í kvöld. Bæði lið hafa verið á góðu skriði. Það verður athyglisvert að sjá hvernig ÍR gengur með Haukavörnina í kvöld,“ sagði Gunnar.

Haukar eru ósigraðir á toppi deildarinnar. Þeir hafa unnið átta leiki, þar af alla fjóra útileiki sína, og gert tvö jafntefli.

„Það er búin að vera mikil umræða um það í vetur að Haukar séu ekki búnir að spila neitt sérstaklega vel. Ég er ekki alveg sammála því. Taflan lýgur ekki,“ sagði Halldór.

„Það yrði ekkert óvænt ef ÍR-ingar myndu vinna í kvöld. Það er alveg lag fyrir ÍR að vinna Hauka. Um daginn sagði ég að ef Haukar vinna þennan leik tapa þeir ekki leik fram að áramótum. Og ég stend við það,“ sagði Halldór.

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Stórleikur í Austurberginu
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×