Karlmaður á sextugsaldri var handtekinn á jóladag og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um kynferðisbrot og frelsissviptingu á heimili hans í Vesturbænum.
Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu, við fréttastofu í kvöld en RÚV greindi fyrst frá.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn meðal annars grunaður um að hafa haldið 25 ára gamalli konu inni á heimili sínu í nokkra daga, misnotað hana kynferðislega og gefið henni fíkniefni.
Réttargæslumaður konunnar hefur staðfest við fréttastofu að kæra hafi verið lögð fram á hendur manninum.
Uppfært 27.12. klukkan 08:10:
Eftirfarandi tilkynning um málið barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Karlmaður á sextugsaldri var á jóladag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í fjögurra daga gæsluvarðhald, eða til 29. desember, á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar vegna gruns um kynferðisbrot og fl. Maðurinn var handtekinn í heimahúsi á jóladag.
Ekki verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
![Fréttamynd](/static/frontpage/images/kvoldfrettir.jpg)