Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, er í viðtali við heimasíðu Evrópumótsins í handbolta sem hefst í næsta mánuði.
Guðmundur fer þar yfir komandi mót hjá íslenska liðinu en hann segir að það sé of snemmt að tala um að íslenska liðið geti unnið til verðlauna.
„Við erum að endurbyggja liðið og okkar langtímamarkmið er að vera meðal átta bestu liða í heiminum eftir tvö til þrjú ár. Liðið er of ungt til þess að setja stefnuna á medalíu núna,“ sagði Guðmundur.
Ísland hefur endað í 13. sæti á síðustu tveimur Evrópumótum en Guðmundur er ánægður með leikmannahópinn.
@aronpalm was on fire during last #MOTW in #veluxehfcl ! Can he lead @HSI_Iceland to a successful Men's #ehfeuro2020 ? https://t.co/CWq7dVr9x4
— EHF EURO (@EHFEURO) December 16, 2019
„Blandan í liðinu er góð. Við höfum gefið yngri og spennandi leikmönnum meia traust. Yngsti er 18 ára og margir þeirra eru ekki tvítugir. Svo erum við með reynslumeiri menn eins og Guðjón Val og Aron sem deila reynslunni með þeim sem yngri eru.“
Íslenska liðið er í riðli með heimsmeisturum Dana, Rússlandi og Ungverjalandi. Guðmundur segir að markmiðið sé milliriðill en bætir við að það verði erfitt verkefni.
„Við þurfum að spila okkar besta leik á öllum sviðum handboltans; í vörn, sókn og markvarslan þarf að vera eins og best verður á kosið. Þetta eru þrír mjög erfiðir andstæðingar. Við viljum komast í milliriðilinn en riðillinn er ákaflega sterkur,“ sagði Guðmundur að lokum.