Fjármálaráðherra segir að ef ekki takist að bjarga Icelandair þurfi að byggja upp nýtt flugfélag sem geti sinnt því hlutverki sem flugfélagið sinni í dag með Keflavík sem miðstöð alþjóðaflugs.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði út í stefnu stjórnvalda gagnvart stöðu Icelandair á Alþingi í dag. Vandinn sem nú væri við að glíma í efnahagsmálum væri ekki bara vandi ríkisstjórnarinnar heldur þjóðarinnar allrar enda hafi Viðreisn stutt allar aðgerðir stjórnvalda. Staða Icelandair væri flókin en öruggar samgöngur til og frá landinu væru lífæð þjóðarinnar.
„Ef það verður brestur á framvindunni núna varðandi flugsamgöngur hvert er þá planið? Hvernig hyggst ríkisstjórnin þá stíga inn í til að tryggja þessi mikilvægu tengsl okkar Íslendinga við umheiminn?“ sagði Þorgerður Katrín. Leiðarkerfi Icelandair væri mjög mikilvægt bæði hvað varðaði útflutning og farþegaflutninga.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði áætlun stjórnvalda að styðja við alþjóðaflugvöll í Keflavík sem sinnti Atlantshafsflugi eins og Icelandair hefði gert í áratugi. Þar lægju verðmætin og enginn annar aðili hafi boðið sig fram til að sinna þessu hlutverki. Ólíklegt væri að erlendir aðilar reyndu að hlaupa í skarðið. Ef áætlanir Icelandair um endurskipulagningu rekstrarins gengju upp hafi ríkið því boðið ríkisábyrgð með skilyrðum. Takist það ekki sé komin upp ný staða.
„Stóra verkefnið sem blasir hins vegar við okkur sameiginlega mistakist þessi tilraun er að byggja að nýju upp félag sem getur sinnt þessu mikilvæga hlutverki með Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll um norður Atlantshafið. Það hljóta að koma margar sviðsmyndir til skoðunar í því samhengi og vonandi þá bornar uppi af þeim sem ætla að koma með fjármagn inn í það úr einkageiranum,“ sagði Bjarni Benediktsson