Enski boltinn

Umboðsmaður Coutinho segir hann spenntan fyrir endurkomu í enska boltann

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Philippe Coutinho
Philippe Coutinho vísir/getty

Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho gæti snúið aftur í enska boltann í sumar en hann þykir ekki eiga framtíð hjá Barcelona.

Coutinho hefur leikið sem lánsmaður með Bayern Munchen á yfirstandandi leiktíð en þýsku risarnir eru ekki áhugasamir um að kaupa kappann sem hefur þó staðið sig ágætlega í Þýskalandi; skorað 8 mörk í 22 deildarleikjum.

Arsenal, Everton og Chelsea eru öll sögð áhugasöm um að fá þennan 27 ára gamla Brasilíumann í sínar raðir en hann þekkir vel til á Englandi eftir að hafa leikið með Liverpool við góðan orðstír í fimm ár. 

„Hann naut þess virkilega að spila í ensku úrvalsdeildinni. Hann myndi örugglega elska að snúa aftur þangað,“ segir Kia Joorabchian, umboðsmaður Coutinho, sem segir þó ómögulegt að taka einhverjar ákvarðanir um framtíðina nú í ljósi ástandsins í heiminum.

„Stærsta spurningamerkið snýr að fjárhag félaganna í kjölfarið af þessu ástandi sem nú ríkir. Það snýr bæði að Barcelona og félögunum í ensku úrvalsdeildinni.“ segir Kia.

Kia er sjálfur annálaður stuðningsmaður Arsenal en hann segir það ekki hafa nein áhrif í komandi viðræðum.

„Það er ekkert leyndarmál að ég er stuðningsmaður Arsenal en það hefur engin áhrif á mína skjólstæðinga. Ég reyni ekki að ýta mínum leikmönnum í ákveðin félög,“ segir Kia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×