Fyrir ÍSAM-mótið sem fram fór í Mosfellsbæ um síðustu helgi höfðu atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir ekki leikið á einu og sama mótinu síðan 2016.
Nú eru þær að fara mætast í annað sinn á innan við viku en þær eru allar skráðar til leiks á fyrsta stigamóti í mótaröð Golfsambands Íslands sem fram fer í sumar. Mótið fer fram á Garðavelli á Akranesi.
Valdís Þóra verður því á heimavelli en hún endaði í fjórða sæti á ÍSAM-mótinu. Guðrún Brá bar sigur úr býtum eftir sexfaldan bráðabana gegn Ólafíu Þórunni en Guðrún leiddi allt mótið.
Þá eru margir af bestu kylfingum landsins í karlaflokki einnig skráðir til leiks. Þar má nefna Axel Bóasson, Andra Þór Björnsson, Guðmund Ágúst Kristjánsson, Ólaf Björn Loftsson og Harald Franklín Magnússon.