Innlent

Á fjórða tug vindorkukosta í fjórða áfanga rammaáætlunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Búrfellslundur Landsvirkjunnar er á meðal virkjunarkosta í vindorku sem Orkustofnun telur til. Vindmyllur þar eiga að geta framleitt um 120 megavött.
Búrfellslundur Landsvirkjunnar er á meðal virkjunarkosta í vindorku sem Orkustofnun telur til. Vindmyllur þar eiga að geta framleitt um 120 megavött. Landsvirkjun

Orkustofnun hefur sent gögn um 43 nýja virkjunarkosti að ósk verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar. Langflestir kostirnir eru í vindorku en stofnunin hefur þó ekki farið yfir gögn um þá vegna lagalegrar óvissu um vindorku gagnvart rammaáætlun.

Í tilkynningu á vef Orkustofnunar kemur fram að af nýju virkjunarkostunum 43 séu 34 í vindorku, sjö í vatnsafli og tveir í jarðhita. Saman myndu virkjunarkostirnir framleiða um 3.600 megavött orku.

Stærstu virkjunarkostirnir í vindafli sem lagðir eru fram eru á vegum norska vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland. Þannig eiga Klaustursels- og Lambavirkjun að geta skilað 250 megavöttum hvor og Austurvirkjun 200 megavöttum.

Vatnsaflsvirkjunarkostirnir sem lagðir eru fram að þessu sinni eru Hamarsvirkjun, Tröllárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun auk stækkunar Vatnsfellsstöðvar, Sigöldustöðvar og Hrauneyjafossstöðvar.

Í jarðhita eru Ölfusdalur og Bolaalda lögð fram sem mögulegir virkjunarkostir.

Stofnunin hefur ekki lokið uppfærslu á kostnaðarflokkagreiningu fyrir virkjunarkosti þannig að nýir kostir verði samanburðarhæfi við eldri kosti. Því hefur stofnunin enn ekki rýnt kostnaðarflokkagreiningu á nýjum kostum.

Hér má sjá lista yfir mögulega virkjunarkosti sem Orkustofnun hefur sent vegna fjórða áfanga rammaáætlunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×