Erlent

WHO hvetur til notkunar á and­lits­grímum

Sylvía Hall skrifar
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur andlitsgrímur geta hjálpað til við að koma í veg fyrir smit. Þó þurfi einnig að huga að öðrum smitvörnum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur andlitsgrímur geta hjálpað til við að koma í veg fyrir smit. Þó þurfi einnig að huga að öðrum smitvörnum. Vísir/Getty

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur horfið frá fyrri stefnu og hvetur nú fólk til þess að nota andlitsgrímur á almannafæri til þess að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Áður hafði stofnunin talið lítið benda til þess að slíkt væri gagnlegt.

Nýjar leiðbeiningar stofnunarinnar taka mið af nýjum rannsóknum sem sýna að andlitsgrímur séu á meðal þess sem getur komið í veg fyrir smit. Því telur stofnunin notkun þeirra ekki vera falskt öryggi líkt og áður var talið.

„Við höfum nýjar upplýsingar sem benda til þess að ef [grímurnar] eru notaðar með réttum hætti getur það komið í veg fyrir dropasmit,“ sagði Dr. Maria Van Kerkhove, aðalsérfræðingur stofnunarinnar í samtali við Reuters. Þá lagði hún áherslu á að stofnunin væri ekki að mæla með andlitsgrímum sem væru notaðar á sjúkrahúsum heldur úr öðrum efnum, til að mynda bómull.

Hún sagði stofnunina biðla til ríkisstjórna að hvetja almenning til þess að nota grímur en Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir þó grímurnar einar og sér ekki duga til heldur þyrfti fólk einnig að huga að handþvotti og félagsforðun.

Leiðbeiningarnar eru þó óbreyttar fyrir heilbrigðisstarfsmenn en þeir eiga ávallt að vera með andlitsgrímur við meðhöndlun Covid-19 sjúklinga eða annarra sjúklinga með öndunarfærasjúkdóma. Þær ná hins vegar nú einnig til starfsfólks á heilsugæslum, hjúkrunarheimilum eða öðrum stöðum þar sem fólk er í langtímavistun. Mikilvægt sé að nota grímur á svæðum þar sem veiran gæti verið í dreifingu.

April Baller, sérfræðingur stofnunarinnar í smitvörnum, sagði almenning geta útbúið grímur heima hjá sér úr klútum eða öðru efni. Nýjar rannsóknir hefðu sýnt að fólk gæti verið að smita aðra áður en einkenni kæmu fram en áður taldi stofnunin óalgengt að einkennalausir væru að valda mörgum smitum.

„Það sem grímurnar gera er að þær koma í veg fyrir að einhver sem hafi sjúkdóminn smiti annan,“ sagði Baller.

Alls hafa rúmlega 6,7 milljónir greinst með kórónuveiruna á heimsvísu og 393.934 látist.


Tengdar fréttir

Sendingin frá Kína sem reyndist allt annað en hættu­laus

Kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19 hefur haft ótrúlega mikil áhrif á daglegt líf okkar allra. Þá hefur hún sett efnahag þjóðarinnar í algjört uppnám en þessi nýja veira sem á uppruna sinn í Kína lét ekki mikið yfir sér í fyrstu.

Andslitsgrímuskylda sett á í Þýskalandi

Nýjar reglur sem gera yfirvöldum kleift að sekta þá sem bera ekki andlitsgrímur um borð í almenningssamgönguvögnum, lestum og í búðum hafa tekið gildi í flestum sambandsríkjum Þýskalands. Hæsta sektin getur numið 1,5 milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×