Frítt verður í Hríseyjarferjuna Sævar út júnímánuð. Þetta varð ljóst eftir að stjórn Akureyrarstofu samþykkti á fundi að veita allt að tveimur milljónum króna í styrk til Ferðamálafélags Hríseyjar til að gera því kleift að fella niður fargjöld í ferjuna í samstarfi við rekstraraðila hennar.
Í tilkynningu á vef Akureyjarbæjar segir að frítt verði í ferjuna frá og með deginum í dag til og með 30. júní næstkomandi.
„Þessi ákvörðun er hugsuð til að styðja við ferðaþjónustu í eyjunni og kveikja áhuga Íslendinga á að heimsækja Hrísey en nýleg könnun leiddi í ljós að um 46% þjóðarinnar hafa aldrei til Hríseyjar komið og innan við 18% hafa heimsótt Hrísey á síðustu fimm árum,“ segir í tilkynningunni.
Hríseyjarferjan Sævar siglir út í eyna frá Árskógssandi.