Fótbolti

Kolbeinn ekki í ástandi til að byrja leiki

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson skoraði þrjú mörk fyrir íslenska landsliðið í fyrrahaust.
Kolbeinn Sigþórsson skoraði þrjú mörk fyrir íslenska landsliðið í fyrrahaust. VÍSIR/GETTY

AIK, lið Kolbeins Sigþórssonar, tapaði illa í öðrum leik sínum í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta og ljóst er að breytingar verða gerðar á liðinu fyrir grannaslaginn mikla við Hammarby í dag. Kolbeinn þarf þó að bíða um sinn eftir sæti í byrjunarliðinu.

Kolbeinn hefur komið inn á sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins en hann glímdi mikið við meiðsli í vetur. Hann lék tuttugu mínútur í 2-0 útisigri gegn Örebro í fyrsta leik og kom svo inn á í upphafi seinni hálfleiks gegn Norrköping, þegar AIK var þegar lent 4-0 undir, en Norrköping vann leikinn 4-1.

Rikard Norling, þjálfari AIK, segir ljóst að breytingar verði á byrjunarliði AIK frá tapinu gegn Norrköping. Á vef Fotbollskanalen er hann spurður hvort að Kolbeinn geti byrjað leikinn, miðað við líkamlegt ástand stjörnuframherjans:

„Nei, ekki eins og útlitið er núna,“ sagði Norling.

Kolbeinn var í byrjunarliði AIK í 12 deildarleikjum á síðustu leiktíð en það var fyrsta alvöru tímabil hans frá árinu 2016, en meiðsli og deilur við forseta franska félagsins Nantes ollu því að hann spilaði sáralítinn fótbolta í hálft þriðja ár. Kolbeinn skoraði þrjú mörk í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra, og þrjú mörk í síðustu sex leikjum Íslands í undankeppni EM en þar með jafnaði hann markamet Eiðs Smára Guðjohnsen. Þeir hafa hvor um sig skorað 26 mörk fyrir Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×