Atvinnulíf

„Aldrei að standa grafkyrr við vinnu“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Gunnhildur Gísladóttir sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu.
Gunnhildur Gísladóttir sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu. Vísir/Vilhelm

Gunnhildur Gísladóttir sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu segir mikilvægt að fólk sem standi mikið við vinnu sína hugi vel að líkamsbeitingu sinni. „Standa jafnt í báða fætur, með slök hné og slakar axlir. Mjaðmir í miðstöðu og rétta vel úr sér. Passa að vera í góðum skóm og þægilegum vinnufatnaði. Vinna alla vinnu eins nálægt líkamanum og hægt er, beint fyrir framan sig og varast að vinda mikið upp á líkamann,“ segir Gunnhildur. 

Þá segir hún vinnuveitendur þurfa að bjóða upp á fjölbreytni þannig að starfsmenn sem þurfi almennt að standa mikið við vinnu, hafi val. „Hafa til dæmis stól eða tyllistól við höndina. Sömuleiðis gott undirlag eða mottu til að standa á. Hæðastillanleg borð. Bretti eða hjólavagna eða annan búnað til að létta á byrðum,“ segir Gunnhildur.

Aðspurð um það hvaða ráð hún myndi gefa starfsfólki sem stendur mikið við vinnu segir Gunnhildur mikilvægt að fólk standi ekki lengi alveg grafkyrrt.

„Ekki endilega að spara sér sporin með því að teygja sig eftir hlutum því það er betra að taka skref og hafa þá vinnuna beint fyrir framan sig,“ segir Gunnhildur og bætir við „Það að standa kyrr í sömu sporum flokkast undir stöðuvinnu þar sem blóðflæði um vöðva er takmarkað en ef starfsmaðurinn hreyfir sig með því að taka lítil hliðarskref eða skref fram og aftur á meðan á vinnu stendur er hún orðin hreyfivinna.“

Hún segir hreyfivinnu heppilegri því þá er blóðflæði óheft í vöðvum. 

Því ætti aldrei að standa grafkyrr við vinnu sína. Við erum gerð fyrir hreyfingu.“

Þá segir Gunnhildur mikilvægt að starfsfólk fái fræðslu um líkamsbeitingu við vinnu um leið og hann er settur inn í verkið. 

Með því að tengja góða líkamsbeitingu strax við verkefnið aukast líkurnar á því að starfsmaðurinn endist lengur í starfi,“ 

segir Gunnhildur og bendir jafnframt á að hvíld inn á milli eða það að víxla á milli verkefna ýti einnig undir betri líðan starfsfólks sem stendur mikið við vinnu.

Getur þú nefnt dæmi um gryfjur sem algengt er að bæði fólk og fyrirtæki falla í en getur leitt af sér algenga kvilla síðar?

„Eitt af því sem að gerist oft þegar fólk stendur við vinnu sína er að vegna þreytu í fótum er ósjálfrátt farið að standa meira á öðrum fætinum og svo skipt yfir á hinn fótinn í stað þess að standa jafnt í báða fætur frá byrjun.

Að standa meira í annan fótinn þýðir að dreifing líkamsþunga er ójöfn og það kemur skekkja upp í hrygginn sem síðan veldur óþægindum í baki og mjöðmum. Það er mikilvægt að standa alltaf jafnt í báða fætur, með bil á milli fóta og varast að yfirspenna hné.

Ef starfsmaður þreytist þá er betra að tylla sér á standstól eða setjast niður í litla stund til þess að safna kröftum.

Annað sem er algengt að sjá er að vinnuhæðin er ekki heppileg. Ef hún er of lág fer starfsmaðurinn annað hvort að bogra eða vinna álútur en ef hún er of há fer hann að spenna sig í öxlum,“ segir Gunnhildur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×