Atvinnulíf

Einstein, Newton og íslenska smjörið ferskt á borðinu í mánuð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kolbrún Sigurðardóttir myndlistarmaður, hönnuður, kennari og framkvæmdastjóri.
Kolbrún Sigurðardóttir myndlistarmaður, hönnuður, kennari og framkvæmdastjóri. Vísir/Vilhelm

Kolbrún Sigurðardóttir segist vera sannur Íslendingur því hún vinni mikið og er nær alltaf að. Það rímar reyndar ágætlega við stöðuheitið hennar því Kolbrún er myndlistarmaður, hönnuður, kennari og framkvæmdastjóri Leirbakarísins. Það rekur hún á Akranesi ásamt Maríu Kristínu Óskarsdóttur meðeigandi sínum en Leirbakaríið er allt í senn vinnustofa, aðstaða til námskeiðahalds og bakarí. Þessa dagana keppist Kolbrún við að finna leið til að geyma íslenska smjörið ferskt frammi á borði í þrjár til fjórar vikur.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um helstu verkefni og skipulagið.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég er morgunhani, ég vakna um klukkan sjö með bors á vör og hendist beint á fætur og fagna deginum. Ég er frekar virk, hef aldrei kunna þá list að sofa fram eftir degi, sbr. að sofa út. Ég er samt ekki tilbúin til að mæta í ræktina kl. 5.50 á morgnana, þá er nenfinlega í mínum huga enn nótt.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að henda mér í góða sturtu, fá mér vel sterkan esspresso og gefa köttunum mínum þeim Einstein og Newton að borða já og svo fæ ég mér oftast eitt grænt og gott boost á morgnana sem orkurgjafa inn í daginn.“

Hvaðan sækir þú helst innblástur?

„Fyrir mér er listsköpun ævintýri eða leiðangur, rannsóknir í leit að kjarnanum, einhverju sem segir sögu eða hefur merkingu. Ég vinn jöfnum höndum í leir og máverk. Í leirverkum mínum dansa ég gjarnan á línunni á milli nytjalistar og skúlptúrs þar sem náttúra efnisins fær að njóta sín. Málverkin mín einkennast af glaðværð, leik, ævintýraþrá og frelsi þar sem íslensk náttúra, húmor og daglegt líf eru oftar en ekki viðfangsefnið.

Ég sæki innblástur í Íslenska náttúru, víðáttuna, dulúðina og dínamíkina, ævintýraleg fegurð í litum formum, víðáttu og og efniskennd. 

Íslenskir þjóðhættir, sögur og leitin að upprunanaum, kjarnanum og virkni efnisins erum mér ofarlega í huga í minni vinnu.“

Kolbrún vinnur þessa dagana að nördaverkefni sem hún kallar Sjálfstæðir ÍslendingarVísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þessa dagana eru nokkur stór verkefni sem eiga hug minn allan. Í myndlistinni eru tvö verkefni sem mestur tími fer í þessa dagana, nördaverkefnið mitt „Sjálfstæðir Íslendingar“ , hönnun gerð smjörkúpa úr leir sem byggja á gömlum grunni og einfaldri eðlisfræði sem gerir kleift að geyma íslenska smjörið ferskt frammi á borði í þrjár til fjórar vikur….já rifið brauð heyrir sögunni til.

Verkefnið mitt Sjálfstæðir Íslendingar gengur út á að kanna svæði þar sem líklegt er að leir hafi myndast og hægt sé að nálgast hann og nýta. Það tekur jarðveg þúsundir ára að umbreytast í leir sem er góður til leirmunagerðara. Ísland er jarðfræðileg mjög ungt land og þykir leirinn sem fundist hefur hér á landi ekki sérlega góður til fjölbreyttrar leirmunagerðar þar sem hann hefur lítínn sveigjanleika. Íslenski leirinn er þrjóskur og þver, en það er ég líka svo við tökum þennan dans saman og reynum að mætast á miðri leið. 

Út frá umhverfissjónarmiðum finnst mér áhugavert að geta nýtt efnivið sem finna má á Íslandi bæði leir og önnur jarðefni í glerungagerð í stað þess að flytja öll hráefnin yfir hálfann hnöttinn með tilheyrandi kolefnasporum.

Ég ferðast um vesturland, vestfirði og austurland þar sem elstu jarðlög landsins eru, þar gref ég upp leirinn sem ég þurrka svo, þvæ, sigta, þurrka aftur og vinn í nýtilegt form, sem hnoðaðan mótanlegan leir eða leirmassa til að steypa úr. Vinn prufur þar sem ég kanna hversu mikið leirinn rýrnar, reyni að renna einfalda hluti úr honum, móta og steypa til að sjá hvort hægt sé að nýta hann óblandaðan. Ég vinn tilraunir með brennslustig, hversu hátt ég get brennt leirinn, en eftir því sem hann er hærra brenndur verður hann sterkari. Þetta eru spennandi rannsóknir þar sem ég skoða notkunarmöguleika, lit, áferð og efnainnihald. Stefnan er að kortleggja staðina þar sem leirinn finnst, skrá helstu upplýsingar um leirinn á hverjuma stað eiginleika og áferð. Þetta verkefni mitt endar á stórri sýningu sem sett verður upp í lok árs 2021 eða sumar 2022.

Ég er í mjög metnaðarfullu verkefni þessa dagana með keramikerunum Guðnýju Hafsteinsdóttur og Ragnheiði Ingunni Ágústsdóttur en við erum að skrifa bók um íslenskt samtímakeramik „Tölum um keramik.

Og að lokum er það nú kannski stærsta verkefnið, verkefni sem ég er í ásamt vinkonu minni Maríu Kristínu Óskarsdóttur en við eigum og rekum saman fyrirtækið Leirbakaríið á Akranesi sem er allt í senn vinnstofa, aðstað til námskeiðahalds og gallerí.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég er sannur Íslendingur, vinn mikið og er nær alltaf að.Oft kann vinnurferlið hjá mér að líta mjög kaotískt út þar sem ég er oftast með marga hluti í gangi í einu sem ég vinn samhliða og kollurinn á flugi með fullt af nýjum hugmyndum. En í allri hringiðunni og kaoisnu er engu að síður nokkuð agað og fókuserað skipulag.

Skissubókin er minn besti vinur þar sem verkefnin hefjast, þar kortlegg ég og skrái hugmyndir, skissa upp og útfæri.

Í stærri verkefnum eins og til dæmis í nördaverkefninu mínu Sjálfstæðir Íslendingar og þegar ég vinn fyrir sýningar set ég alltaf upp tímalínu til að halda utan um vinnuferlið: skissu og hugmyndavinna, þróun, tilraunir, vinna við verkefnið/framkvæmd, frágang og uppsetning.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Þó að ég sé morgunhani á ég það líka til að vinna fram á nætur, stundum er erfitt að láta penslana frá sér á kvöldin þegar kyrrðin er algjör og ekkert sem truflar.

Annars reyni ég nú oftast að fara að sofa í kringu miðnætti, sólarhringurinn er bara full stuttur. Ég er að vinna í að finna þennan gullna balans þar sem ég kem fyrir sjö til átta tíma svefni. Ég hef heyrt að það geri manni gott.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×