Innlent

400 til­kynningar vegna skjálftanna í morgun

Sylvía Hall skrifar
Íbúar í Grindavík hafa fundið vel fyrir skjálftunum.
Íbúar í Grindavík hafa fundið vel fyrir skjálftunum. Vísir/Vilhelm

Um 1.400 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesi síðasta sólarhring og þar af um sjö hundruð eftir miðnætti. Á tólfta tímanum í gærkvöld varð snarpur jarðskjálfti við Fagradalsfjall og fannst hann mjög víða á suðvesturhorninu að því er segir í athugasemdum jarðvísindamanns hjá Veðurstofu Íslands.

Margir eftirskjálftar urðu í kjölfarið, þeir stærstu 3,4 og 3,5 að stærð eftir miðnætti og annar klukkan 05:46 sem var 4,6 að stærð. Eftirskjálftarnir fundust víða á suðvesturhorninu ef marka má tilkynningar til Veðurstofunnar.

Um 400 tilkynningar bárust Veðurstofunni frá klukkan fjögur til sex í morgun.

Þá var tilkynnt um grjóthrun í Festarfjalli um sex kílómetra suðvestur af upptökum skjálftans en náttúruvársérfræðingur sagði í samtali við Vísi í gærkvöld að það væri viðbúið.

Smári Jökull Jónsson, íbúi í Grindavík, sagðist hafa fundið vel fyrir skjálftanum og hann hafi jafnframt varað lengur en margir aðrir skjálftar á svæðinu undanfarið. Skjálftinn hafi „klárlega verið einn af þeim stærri“.

„Það er búið að vera mikið af skjálftum hérna síðustu mánuðina en þessi var klárlega einn af þeim stærri. Það hristist allt vel hérna í húsinu. Svo þegar maður heyrir hluti hristast, þá veit maður að skjálftinn er stærri en venjulega,“ sagði Smári í samtali við Vísi eftir skjálftann.

Miklar jarðhræringar hafa verið á svæðinu undanfarið en á laugardagsmorgun mældist skjálfti af stærðinni 4,1 um fjóra kílómetra norður af Grindavík. Annar skjálfti varð tveimur mínútum áður og mældist sá 3,2.

Skjálftavirknin hefur verið viðvarandi á svæðinu í kringum Grindavík eftir að landris hófst á Reykjanesskaganum í janúar og var lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna þess.


Tengdar fréttir

Jarðskjálfti á Reykjanesi

Jarðskjálfti sem var fimm að stærð varð á Reykjanesi nú á tólfta tímanum, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×