Erlent

Þrettán nunnur úr sama klaustri létust vegna Covid-19

Andri Eysteinsson skrifar
Nunnurnar á myndinni tengjast fréttinni ekki beint..
Nunnurnar á myndinni tengjast fréttinni ekki beint.. Getty/Mark Wilson

Faraldur kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á heimsbyggðina en óvíða jafn mikil og í klaustri einu í Livonia, skammt utan við bandarísku borgina Detroit. Þrettán nunnur úr klaustrinu létu lífið af völdum veirunnar.

CNN greinir frá því að tólf kvennanna hafi látist á einum mánuði eftir sú fyrsta, hin 99 ára gamla Mary Luiza Wawrzyniak lést á föstudeginum langa. Á páskadag létust svo þær Marie Lesinski og Mary Estelle Printz báðar á tíræðisaldri.

„Við syrgjum hverja einustu af systrum okkar sem létust á tímum farsóttarinnar og þökkum fyrir þá sem hugsa til og biðja fyrir okkur,“ segir Mary Cristopher Moore stjórnandi í reglu Felix-systranna sem reka klaustrið.

Konurnar sem létust höfðu lengi dvalið í klaustrinu sem eitt sinn hýsti um 800 nunnur. Í dag dvelja iðulega fimmtíu í Livonia.

Tíunda maí, einum mánuði eftir dauða Wawrzyniak höfðu tólf látið lífið og voru þær á aldrinum 69-99 ára gamlar.

Það var svo í lok júní sem að Lottie Suchyta, 98 ára gömul lést.

Að minnsta kosti þrjátíu nunnur í klaustrinu smituðust af kórónuveirunni og hafa því 17 náð bata. Sumar þeirra glíma þó enn við eftirköst. „Sumar okkar eiga erfitt með að ná sér til fulls, til að mynda vegna mikillar þreytu, öndunarerfiðleika og fleiri kvilla,“ sagði í tilkynningu frá klaustrinu í byrjun mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×