Innlent

Lög­regla kölluð til vegna ó­friðar í mennta­skóla­úti­legu

Sylvía Hall skrifar
Hópur menntaskólanema var í útilegu á svæðinu og þurfti fjölskyldufólk að fara annað vegna ófriðarins.
Hópur menntaskólanema var í útilegu á svæðinu og þurfti fjölskyldufólk að fara annað vegna ófriðarins. Aðsend

Lögreglan á Suðurlandi hafði afskipti af hópi gesta á tjaldsvæðinu á Laugarvatni á laugardagskvöld. Menntaskólaútilega var á svæðinu þetta kvöld og þurfti lögregla að koma og stilla til friðar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru fjölskyldur á svæðinu sem ákváðu að yfirgefa tjaldsvæðið um miðnætti vegna láta í menntaskólahópnum. Einhverjir í hópnum hafi verið ölvaðir með dólgslæti og því sáu sumir gestir sér ekki annað fært en að fara annað.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, staðfestir að lögregla hafi aðstoðað aðra gesti að yfirgefa tjaldsvæðið eftir að tilkynning barst um ófrið. Það hafi þó ekki verið frekari eftirmálar vegna útkallsins.

„Við höfðum afskipti af þessum málum og aðstoðuðum fólk sem vildi koma sér í burtu. Við töluðum við fólk og stilltum til friðar en svo greiddist úr því eins og kostur var,“ segir Oddur.

„Það voru þarna einhverjar óspektir sem við höfðum afskipti af.“

Lögregla þurfti að vísa einhverjum gestum af svæðinu og var einn fluttur í járnum á Selfoss. Sá var orðinn rólegur þegar þangað kom og tók móðir hans við honum samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×