Handbolti

Guðmundur: Rosalegt ef við hefðum lent í flugseinkunum dagsins

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar

Íslenska landsliðið í handbolta var á ferðalagi alla síðustu nótt og leikmenn liðsins voru að hrista af sér ferðaþreytuna á fyrstu æfingu liðsins í Malmö nú síðdegis.

„Þetta var mjög erfitt ferðalag en algjörlega nauðsynlegt að mínu mati. Vélin sem við áttum að fara með klukkan fjögur í dag er búið að seinka til tvö í nótt. Það hefði verið rosalegt að lenda í því að fá slíkan undirbúning fyrir fyrsta leik,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari í Malmö í dag og hrósaði starfsliði HSÍ fyrir að hafa náð að breyta ferðaplönum liðsins í tíma.

Nokkrir menn hafa verið að glíma við meiðsli en þeir eru allir að ná heilsu.

„Standið er nokkuð gott og Elvar Örn Jónsson mun æfa með okkur í dag. Það eru allir komnir á góðan stað. Ég hef trú á því að við getum stillt upp okkar sterkasta liði gegn Dönum.“

Guðmundur gerði ráð fyrir því að vinna upp smá svefn í nótt.

„Það verður tiltölulega snemma og allir þurfa góðan nætursvefn eftir að hafa misst eina nótt úr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×