Erlent

Alvarleg tölvuárás á utanríkisráðuneyti Austurríkis

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Getty

Utanríkisráðuneyti Austurríkis varð í gær fyrir tölvuárás. Grunur leikur á að útsendari annars ríkis standi að baki árásinni. BBC greinir frá þessu.

Árásin hófst í gærkvöldi og sérfræðingar hafa varað við því að hún gæti haldið áfram næstu daga.

Athygli hefur vakið að árásin hófst sama dag og Græningjaflokkur Austurríkis tók ákvörðun um að ganga í stjórnarsamstarf við Íhaldsflokk landsins.

Fljótt var tekið eftir árásinni og brugðist hratt við henni, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá ráðuneytinu.

„Þrátt fyrir að allar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar, er aldrei hægt að verjast tölvuárásum fullkomlega,“ segir í yfirlýsingunni.

Árásin er ekki sú fyrsta sem ríkisstofnanir evrópskra ríkja verða fyrir, en í mars 2018 varð tölvukerfi þýsku ríkisstjórnarinnar fyrir alvarlegri tölvuárás.

Þá er hópur hakkara, sem þekktur er undir nafninu „Skrautlegur björn“ (Fancy Bear), grunaður um að hafa staðið að baki samskonar árás á tölvukerfi þýska þingsins árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×