Bíll fór í höfnina við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í kvöld. Þrír voru í bílnum og hafa þeir allir verið fluttir á slysadeild með sjúkrabíl. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan þeirra. Lögregla segir um að ræða „mjög alvarlegt slys“.
Varðstjóri á slökkviliðinu segir í samtali við Vísi að tilkynning hafi borist um málið rétt rúmlega níu í kvöld. Honum var ekki kunnugt um tildrög þess að bíllinn lenti í höfninni.
Fimm kafarar frá séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar voru kallaðir út að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Þeir voru enn að störfum í höfninni um klukkan tíu, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Þá eru kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra einnig á vettvangi.
Myndir frá vettvangi nú á tíunda tímanum sýna að mikill viðbúnaður er í höfninni og fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutningamanna að störfum.
Uppfært klukkan 22:27:
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var ungt fólk í bílnum. Viðbragðsaðilar hyggjast fljótlega hefjast handa við að hífa bílinn upp úr sjónum. Höfninni hefur nú verið lokað.
Eftirfarandi tilkynning um málið barst frá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu klukkan 22:35:
Mjög alvarlegt slys varð í Hafnarfirði á tíunda tímanum í kvöld þegar bifreið fór fram af Óseyrarbryggju og hafnaði í sjónum. Tilkynning um slysið barst kl. 21.07 og fór fjölmennt lið viðbragðsaðila þegar á staðinn en vinna á vettvangi stendur enn yfir.
Þeir sem voru í bílnum voru fluttir á slysadeild en engar frekari upplýsingar um málið er hægt að veita að svo stöddu.
