Handbolti

Viggó: Ætlaði að verða atvinnumaður í fótbolta og spila með Liverpool

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Allir leikmenn íslenska liðsins spiluðu vel gegn Rússum í gær og það fæddust nýjar stjörnur í landsliðinu. Þar á meðal er bæjarstjórasonurinn af Nesinu, Viggó Kristjánsson.

Við hittum Viggó í dag og spurðum hann að því hvernig væri að vera orðin stjarna á einni nóttu.

„Það er erfitt. Sérstaklega á svona móti en samt auvðitað ótrúlega gaman. Það er erfitt að komast niður á jörðina enda mikil umfjöllun og ég fékk fullt af skilaboðum í gær,“ sagði Viggó eftir blaðamannafund HSÍ í dag.

„Ég fór svo aðeins í FIFA með strákunum og náði mér niður þar. Þetta var samt eins og ég hefði orðið heimsmeistari en gaman að því og að fólk geti samglaðst með manni.“

Viggó, sem orðinn er 26 ára, var stjarna í bæði handbolta og fótbolta og hann spilaði meðal annars með Blikum í efstu deild fótboltans.

„Ég ætlaði að verða atvinnumaður í fótbolta og spila með Liverpool. Það gekk ekki alveg eftir en ég sé ekki eftir að hafa skipt yfir. Ég vissi alltaf að ég væri góður í handbolta. Ef ég hefði ekki valið fótboltann þá hefði ég alltaf séð eftir því ef ég hefði ekki reynt það. Ég er atvinnumaður í handbolta í dag og gæti ekki beðið um betri vinnu.“

Þessi mikla athygli er ný af nálinni og Viggó er meðvitaður um að það geti verið erfitt að glíma við slíka athygli.

„Þetta verður mjög erfitt ef ég á að vera hreinskilinn. Þetta krefst aga og einbeitingar og það er kannski best að slökkva bara á símanum.“


Tengdar fréttir

Dönsku fjölmiðlarnir sóttu fast að Guðmundi

Kaldhæðni örlaganna hefur hagað því þannig að framhaldslíf Dana á EM hangir á því að Guðmundi Guðmundssyni og strákunum okkar takist að leggja Ungverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×