Leikur Keflavíkur og Blika var aldrei spennandi. Keflavíkur stúlkur leiddu með átta stigum eftir fyrsta leikahluta og slátruðu svo leiknum endanlega eftir hlé. Þær unnu þriðja leikhlutann 21-8 og úrslitin ráðin.
Lokatölur 81-51 og Keflavík því enn í þriðja sæti deildarinnar en Blikar í því næstneðsta.
Daniela Morillo var stigahæst hjá Keflavík með 25 stig en Danni Williams skoraði 29 fyrir Breiðablik.
Það var öllu meiri spenna í Grindavík þar sem þurfti að framlengja. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma en í framlengingunni voru það Haukar sem voru sterkari og unnu 78-70 sigur.
Randi Brown skoraði hvorki meira né minna en 41 stig fyrir Hauka en Jordan Reynolds var stigahæst Grindvíkinga með 25 stig.
Grindavík er enn neðst í Dominos-deildinni með aðeins einn sigur í vetur. Haukar lyftu sér upp í fjórða sætið með sigrinum, uppfyrir Skallagrím sem á leik til góða á morgun.
