Fram, Valur og KA/Þór eru þrjú af þeim fjórum liðum sem leika í undanúrslitum í Coca-Cola bikar kvenna þetta árið.
Á morgun skýrist svo hvort fjórða og síðasta liðið verður Fjölnir eða Haukar er þau mætast í Dalhúsum.
Fram vann sex marka sigur á HK, 35-29, í eina úrvalsdeildarleik kvöldsins. Leikurinn var kaflaskiptur en Fram var þó sex mörkum yfir í hálfleik, 18-12.
Karen Knútsdóttir var stórkostleg í liði Fram. Hún gerði ellefu mörk en Steinunn Björnsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir gerðu sex hvor.
Hjá HK gerði Díana Kristín Sigmarsdóttir átta og Sigríður Hauksdóttir sjö.
Ríkjandi bikarmeistarar Vals lentu í ekki miklum vandræðum með Grill 66-deildarlið FH í Kaplakrika. Lokatölur 34-19 eftir að Valur hafi verið 16-9 yfir í hálfleik.
Hildur Björnsdóttir og Lovísa Thompson voru markahæstar í liði Vals með sex mörk hvor en Íris Björk Símonardóttir var með 53% markvörslu.
Britney Cots og Emilía Ósk Steinarsdóttir gerðu sex mörk hvor hjá Fimleikafélaginu.
KA/Þór vann svo tíu marka sigur á ÍR, 30-20, eftir að hafa leitt með fimm mörkum í hálfleik, 15-10.
Ásdís Guðmundsdóttir var með tólf mörk fyrir KA/Þór en Matea Lonac var frábær í markinu. Hún varði helming þeirra skota sem hún fékk á sig.
Laufey Lára Höskuldsdóttir gerði sex mörk fyrir ÍR og Arna Kristín Einarsdóttir fjögur.
Fram, Valur og KA/Þór í undanúrslit
