Sex slösuðust í hörðum árekstri tveggja fólksbíla á Þjóðvegi 1 við Stóru-Giljá um fimmtán kílómetra suður af Blönduósi á þriðja tímanum í dag. Vilhjálmur Stefánsson, rannsóknarlögreglumaður á Blönduósi, segir alla sex sem um borð voru í bílnum hafa verið flutta með sjúkraflutningsbifreið á Blönduós.
Von er á þyrlu Landhelgisgæslunnar á flugvöllinn á Blönduós klukkan 15:45. Telur Vilhjálmur að þrír verði fluttir með þyrlunni í bæinn.
Að sögn Vilhjálms er krap í vegköntum og hiti við frostmark. Því sé nokkur hálka á veginum. Hann lýsir árekstrinum sem hörðum en bílarnir tvier komu hvor úr sinni áttinni. Svo virðist sem ökumaður annars fólksbílsins hafi misst stjórn á honum.
Telur Vilhjálmur um hálftíma eftir af vinnu á vettvangi áður en hægt verði að hleypa umferð á á nýjan leik.