Fótbolti

Blikar slátruðu Selfossi | Grindavík vann HK

Sindri Sverrisson skrifar
Agla María Albertsdóttir fór á kostum gegn Selfossi í dag.
Agla María Albertsdóttir fór á kostum gegn Selfossi í dag. vísir/daníel

Agla María Albertsdóttir skoraði fernu og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir þrennu þegar Breiðablik vann 8-1 sigur á Selfossi í Lengjubikarnum í dag. Hjá körlunum vann 1. deildarlið Grindavíkur sigur á HK, 2-1.

Breiðablik komst í 4-0 í fyrri hálfleik gegn Selfossi í dag en Alexandra Jóhannsdóttir skoraði síðasta markið fyrir hlé. Í seinni hálfleik fullkomnaði Agla María fernuna og Karólína þrennuna, en Magdalena Anna Reimus skoraði eina mark Selfyssinga.

Breiðablik og Fylkir eru því með 3 stig hvort í A-deild en Fylkiskonur, sem unnu Reykjavíkurmótið, unnu í gær Stjörnuna, 3-0. Þórdís Elva Ágústsdóttir skoraði tvö mörk og Stefanía Ragnarsdóttir eitt.

Guðmundur Magnússon, sem eitt sinn lék með HK, skoraði bæði mörk Grindvíkinga í sigrinum á HK. Birkir Valur Jónsson minnkaði muninn fyrir heimamenn í Kórnum þegar korter var til leiksloka. HK er því án stiga eftir tvo leiki en þetta var fyrsti leikur Grindavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×