Innlent

Opin fyrir því að semja sérstaklega við starfsfólk á leikskólum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Óhætt er að segja að mikið sé í húfi því næsta verkfall verður að óbreyttu laust fyrir miðnætti á mánudag en það verður ótímabundið.
Óhætt er að segja að mikið sé í húfi því næsta verkfall verður að óbreyttu laust fyrir miðnætti á mánudag en það verður ótímabundið. Vísir/Stöð 2

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar segist vera opin fyrir því að ræða kjör starfsfólks á leikskólum sérstaklega. Ótímabundið verkfall Eflingarstarfsfólks sem skellur á laust fyrir miðnætti á mánudag sé mikið áhyggjuefni.

Í dag er þriðji verkfallsdagurinn í röð hjá félagsmönnum Eflingar hjá Reykjavíkurborg en verkfallið stendur til miðnættis í kvöld. Síðasti fundur samninganefndanna fór fram í húsakynnum ríkissáttasemjara á föstudag og bar ekki mikinn árangur.

Búið var að boða samninganefndirnar til fundar á mánudag, rétt áður en verkfallið skall á, en þeim fundi var aflýst með skömmum fyrirvara.

Fréttastofa fékk þau svör frá embætti ríkissáttasemjara fyrir hádegi að ekki væri búið að boða til nýs fundar og er alls óvíst hvenær það verður gert. Áætlað er að verkfallsaðgerðirnar hafi áhrif á um 3.500 börn og fjölskyldur þeirra.

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, sagði að staðan í samningaviðræðunum væri óbreytt og að enn væri langt í land.

„Það er þá viðfangsefni okkar. Það sem við höfum bent á er að við viljum gjarnan ræða einstaka hópa. Ef það er mat Eflingar að það séu einhverjir hópar sem þurfi að skoða sérstaklega - sem til dæmis hefur verið bent á starfsmenn á leikskól - þá hefðum við viljað taka þá umræðu,“ segir Harpa.

Þannig að þið eruð opin fyrir því að taka starfsfólk leikskólanna út fyrir sviga og skoða sérstaklega?

„Við höfum rætt það að ef það er einhver flötur þar að þá sé sjálfsagt að skoða það. En leiðrétting heilt yfir alla er eitthvað sem við sjáum ekki flöt á,“ svarar Harpa.

 

Áætlað er að verkfallsaðgerðirnar hafi áhrif á um 3.500 börn og fjölskyldur þeirra. Verkfallið hefur einnig áhrif á 1.650 notendur velferðarþjónustu borgarinnar auk þess sem sorphirða frestast í þeim hverfum þar sem tæming á að fara fram samkvæmt sorphirðudagatali.vísir/vilhelm

Óhætt er að segja að mikið sé í húfi því næsta verkfall verður að óbreyttu laust fyrir miðnætti á mánudag en það verður ótímabundið.

„Vissulega er það áhyggjuefni en viðfangsefni okkar er að semja við alla starfsmenn Reykjavíkurborgar sem eru með lausa samninga.  Ef við sjáum einhvern ómöguleika í framsetningu Eflingar gagnvart öðrum hópum þá er verkfall í sjálfu sér ekki að leysa það,“ segir Harpa og bætir við að samninganefnd borgarinnar hafi mikinn samningsvilja.

„Það er einlæg von okkar, samninganefndar Reykjavíkurborgar, að við náum að ganga frá nýjum kjarasamningi sem er öllum mikið hagsmunamál.“

Fáein tilfelli um hugsanleg verkfallsbrot

Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir, verkfallsvörður Eflingar, var stödd við vörslu í Vesturbænum þegar fréttastofa náði tali af henni. Hún sagði að örfá tilfelli hefðu komið upp um möguleg verkfallsbrot sem verði skoðuð nánar síðar. Ingibjörg metur þó tilfellin sem svo að ekki hafi endilega verið brotavilji á ferð.

„Fólk er að reyna sitt besta og það hefur kannski ekki fengið réttar upplýsingar eða slíkt,“ segir Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir, verkfallsvörður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×