Innlent

Boðar samninganefndir SA og starfsmanna ISAL á fund

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ríkissáttasemjari hefur boðað SA og samninganefnd starfsmanna ISAL á fund á föstudag í ljósi nýjustu tíðinda.
Ríkissáttasemjari hefur boðað SA og samninganefnd starfsmanna ISAL á fund á föstudag í ljósi nýjustu tíðinda. Vísir/Egill

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir starfsmanna ISAL – álversins í Straumsvík og Samtaka atvinnulífsins á fund næstkomandi föstudags í ljósi tíðinda morgunsins af mögulegri lokun álversins. Þetta staðfestir Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri hjá ríkissáttasemjara, í samtali við Vísi.

Kjaradeila starfsmanna álversins við SA, sem fer með samningsumboðið fyrir hönd ISAL, hefur verið á borði sáttasemjara undanfarið.

Alls eiga fimm stéttarfélög aðild að viðræðunum fyrir hönd starfsmanna, Verkalýðsfélagið Hlíf, VR, Rafiðnaðarsambandið, VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna og FIT – félag iðn- og tæknigreina.

Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna ISAL, sagði í samtali við fréttastofu í morgun, að samkomulag hefði tekist þann 24. janúar síðastliðinn um drög að kjarasamningi. SA og samninganefnd ISAL hafi hins vegar ekki fengið leyfi frá Rio Tinto til að undirrita kjarasamninginn.

„Þetta er náttúrulega mjög skrýtið og hefur aldrei gerst áður á íslenskum vinnumarkaði að það sé tilbúinn samningur þetta lengi og atvinnurekendur fáist ekki til að skrifa undir hann. Það hefur aldrei gerst áður á Íslandi,“ sagði Reinhold í samtali við fréttastofu.

Í morgun var svo tilkynnt að Rio Tinto, eigandi ISAL, sé nú að hefja gagngera endurskoðun á starfseminni í Straumsvík með það að markmiði að gera hana arðbærari en tap hefur verið á rekstrinum undanfarin ár.

Allar leiðir séu undir við endurskoðunina, sem ljúka á við á fyrri helmingi þessa árs, þar með talið framleiðsluminnkun og möguleg lokun álversins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×