Slitlagið á þjóðvegum á Vestfjörðum er víða mikið skemmt eftir þíðuna í síðustu viku og á verstu köflunum milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar hefur Vegagerðin neyðst til að lækka hámarkshraða. Myndir af vegaskemmdum mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.
Vegurinn um Mikladal, milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar, er umferðarmesti fjallvegur Vestfjarða á veturna, að sögn Bríetar Arnardóttur, yfirverkstjóra Vegagerðarinnar á Patreksfirði. Þar er núna búið að lækka hámarkshraða niður í fimmtíu kílómetra hraða.

Í botni Tálknafjarðar þurfa menn að aka ennþá hægar, hreinlega læðast yfir holurnar, segir Bjarnveig Guðbrandsdóttir oddviti, sem tók þessar myndir af skemmdunum, en hún segir umferð flutningabíla hafa stóraukist um vegina með uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum.

Bríet vegaverkstjóri segir umhleypinga í veðrinu og sérstaklega þíðuna í síðustu viku valda mestu um skemmdirnar og þetta verði lagfært við fyrsta tækifæri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: