Innlent

Há­vaðinn úr í­búðinni reyndist heima­fæðing

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðist var á mann og hann rændur í Kópavogi í nótt.
Ráðist var á mann og hann rændur í Kópavogi í nótt. vísir/vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út í nótt eftir að tilkynnt var um hávaða frá íbúð í hverfi 101 í Reykjavík. Í dagbók lögreglu segir að tilkynningin hafi borist um klukkan korter í eitt. Eðlilegar skýringar hafi hins vegar verið á hávaðanum þar sem í ljós kom að þarna var heimafæðing í gangi.

Einnig segir frá því að lögregla hafi í nótt handtekið mann sem grunaður er um að hafa ráðist á annan mann og rænt í Kópavogi. Tilkynningin barst lögreglu korter yfir eitt og var maður handtekinn síðar um nóttina vegna gruns um að tengjast árásinni og var hann vistaður í fangageymslu. 

Í dagbók lögreglu segir ennfremur frá því að lögregla hafi haft afskipti af hvalaskoðunarskipi sem að Landhelgisgæslan hafi fært til hafnar vegna brota á siglingarlögum, en brotin fólust í of mörgum farþegum um borð og fleira.

Þá segir frá því að tilkynnt hafi verið um innbrot í nokkrar geymslur íbúða fjölbýlishúss í hverfi 105. „Ekki náðist í alla íbúa og ekki vitað nákvæmlega hverju var stolið en m.a. áfengi, myndavél með tilheyrandi búnaði,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×