Leki kom upp í dælustöð heits vatns við Vífilstaði í Garðabæ seint í gærkvöldi.
Í tilkynningu frá Veitum segir að bilunin tengist að öllum líkindum áhleypingu vatns á hitaveitukerfið eftir stóra heitavatnslokun á höfuðborgarsvæðinu. Ekki sé óalgengt að upp komi slíkir hnökrar við þannig aðstæður.
„Dælustöðin er nú óstarfhæf en vatni er veitt eftir öðrum leiðum til notenda sunnan Vífilstaða, þ.e. í Hafnarfirði og Urriðaholti í Garðabæ. Allir notendur eru með heitt vatn en þrýstingur getur verið lægri en venjulega hjá hluta þeirra, sér í lagi í hverfum er standa hærra í landinu, eins og Urriðaholti í Garðabæ og Áslandi og Holtinu í Hafnarfirði. Áhrifanna gæti þó gætt víðar.
Unnið er að viðgerð en ekki er ljóst á þessari stundu hversu langan tíma hún tekur,“ segir í tilkynningunni.