Samninganefndir félaga BSRB, ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands sveitarfélaga mættu aftur til fundar klukkan tíu í morgun í Karphúsinu eftir að hafa fundað allan daginn í gær. Ef ekki nást samningar fyrir mánudaginn skellur á verkfall félaga í BSRB sem kemur til með að hafa víðtæk áhrif á skóla, leikskóla, frístundaheimili, þjónustu við aldraða auk þess sem starfsemi fjölda stofnana raskast og sundlaugum og íþróttahúsum verður víða lokað.


Fjölmennt er á fundum í húsinu í Karphúsinu og segir Árni Stefán Jónsson formaður Sameykis, sem er eitt aðildarfélaga BSRB, verið að reyna að finna lausn á mörgum hlutum. „Við erum bara að vinna að þessu af fullum heilindum og að reyna að klára þetta núna yfir helgina. Það er mjög erfitt að segja akkúrat á þessari stundu hvort að okkur tekst það eða ekki. Við höfum tvo daga og það er nú svo sem getur margt gerst á tveim dögum í sjálfu sér. Það eru svona mál, erfið mál, sem hafa fylgt okkur dálítið lengi og við erum ekki búin að finna lausn á,“ segir Árni.
Aðspurður um það hvort hann telji að samningar náist um helgina segist Árni lítið vilja segja um það á þessari stundu. „Þetta getur brugðið til beggja vona,“ segir Árni.
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur ákveðið að leggja ekki niður störf í verkfalli eins og til stóð vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þá hafa tvö aðildarfélög BSRB, Sameyki og Sjúkraliðafélagið, veitt undanþágu vegna verkfallsins hjá Landspítalanum og heilsugæslunni vegna veirunnar. „Það auðvitað dregur verulega úr bitinu sem við höfum. Við erum að reyna að þrýsta á um gerð kjarasamninga. Við skiljum hins vegar alvarleika stöðunnar og viljum bregðast því en meginmarkmiðið er að semja og það þarf tvo til þess,“ segir Sonja.