Ákveðið hefur verið að fresta árshátíð starfsmanna Marel sem átti að fara fram þann 21. mars næstkomandi. Þetta staðfestir samskiptastjóri fyrirtækisins, Auðbjörg Ólafsdóttir í samtali við Vísi.
Frestun árshátíðarinnar er liður í stærri aðgerðum sem ætlað er að vernda starfsfólk fyrirtækisins fyrir kórónuveirusmiti. Til að mynda hafa starfsmenn verið hvattir til að forðast óþarfa utanlandsferðum og þeir starfsmenn sem dvalið hafa á skilgreindu áhættusvæðum beðnir um að vinna að heiman. Þá hefur fyrirkomulagi í mötuneyti verið breytt og líkamsrækt starfsfólks verið lokað.
„Við erum að grípa til fyrirbyggjandi varúðarráðstafana til að tryggja öryggi starfsfólks og daglegan rekstur,“ segir Auðbjörg. Aðgerðirnar miða meðal annars að því, að sögn Auðbjargar, að því að hindra óþarfa umferð um starfsstöð fyrirtækisins.
„Við viljum grípa til aðgerða strax og leggja okkar lóð á vogarskálarnar við að hindra frekari útbreiðslu,“ segir Auðbjörg Ólafsdóttir, samskiptastjóri Marel.
Fresta árshátíð starfsmanna Marel vegna kórónuveirunnar

Tengdar fréttir

Hver hátíðin á eftir annarri blásin af vegna veirunnar
Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta ársfundi Samorku, sem fram átti að fara í næstu viku.

„Við erum ekki að ráðleggja neinum að hætta við eitthvað“
Ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa tilkynnt um það í gær og í dag að þau hafi ákveðið að fresta fundum eða árshátíðum vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Össur hættir við árshátíð um helgina
Stoðtækjarisinn Össur hefur ákveðið að fresta árshátíð fyrirtækisins sem fara átti fram um helgina.