Lögmenn bresku athafnakonunnar Ghislaine Maxwell, sem hefur verið ákærð fyrir að aðstoða barnaníðinginn Jeffrey Epstein við mansal, segja ekki hægt að opinbera það sem hún sagði í vitnaleiðslu árið 2016. Þau gögn myndu leka á netið og eyðileggja möguleika hennar á að fá sanngjörn réttarhöld.
Gögnin sem um ræðir snúa að vitnaleiðslum hennar þegar Virginia Giuffre höfðaði einkamál gegn Epstein og sakaði hann um að hafa haldið sér sem kynlífsþræl, með aðstoð Maxwell. Málinu lauk með sátt.
Dómari hefur úrskurðað að þessi gögn, og önnur, skuli opinberuð en lögmenn Maxwell hafa áfrýjað þeim úrskurði og reyna nú að koma í veg fyrir það.
Meðal annars segja þeir að henni hafi verið lofað á sínum tíma að ummæli hennar yrðu ekki opinber. Þeir segja einnig að persónulegar og viðkvæmar upplýsingar um hana yrðu þá á almannafæri og myndu fara eins og eldur í sinu um internetið.
Kettinum yrði hleypt út úr pokanum, eins og þeir orðuðu það.
Í frétt Reuters er haft eftir lögmönnum Maxwell að umfjöllun um þessi gögn myndi hafa mikil áhrif á mögulega kviðdómendur í máli hennar. Svo mikil áhrif að réttarhöldin gætu ekki verið sanngjörn.
Maxwell hefur sagst saklaus af því að hafa hjálpað Epstein með því að lokka unglingsstúlkur sem Epstein og vinir hans misnotuðu kynferðislega. Þessar stúlkur voru jafnvel fjórtán ára gamlar en ákærurnar gegn Maxwell snúa að þremur stúlkum sem brotið var á árunum 1994 til 1997.
Hún er einnig sökuð um að hafa logið um að hafa ekki vitað af brotum Epstein.
Maxwell situr í fangelsi í New York og mun gera það þar til réttarhöldin gegn henni fara fram í júlí á næsta ári.