Innlent

Upp­lýsa þurfi konur af er­lendum upp­runa um til­vist Kvenna­at­hvarfsins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu.
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu. Vísir

Átta af tíu konum af erlendum uppruna sem dvöldu í Kvennaathvarfinu og tóku þátt í rannsókn á vegum athvarfsins vissu ekki af tilvist þess eða að þær gætu leitað þangað vegna heimilisofbeldis. Verkefnastýra athvarfsins segir það alvarlegt og telur að upplýsa þurfi fólk af erlendum uppruna um athvarfið við komuna hingað til lands.

„Þær vissu ekki að það væri athvarf og þær vissu ekki að þær gætu komið. Í einhverjum tilfellum var gerandinn búinn að segja þeim að Kvennaathvarfið væri bara fyrir konur í neyslu og konur sem væru geðveikar og nýttu sér þannig þekkingarleysi kvennanna,“ segir Drífa Jónasdóttir, verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu, í samtali við fréttastofu.

Í rannsókninni var talað við tíu konur af erlendum uppruna sem dvalið höfðu í kvennaathvarfinu á tímabilinu 1. ágúst 2019 til 29. febrúar 2020. Níu þeirra voru beittar andlegum ofbeldi, átta líkamlegu ofbeldi og sjö fjárhagslegu ofbeldi. Sex þeirra áttu börn og sögðu þrjár mæðranna að ofbeldið hafi beinst beint eða óbeint að börnunum. Öll börn þessara kvenna voru með í dvöl í athvarfinu.

Helmingur ofbeldismanna erlendra kvenna íslenskir

Þrjár kvennanna höfðu fengið morðhótun, fjórar verið beittar kynferðislegu ofbeldi, þrjár höfðu verið teknar kyrkingartaki, þrjár orðið fyrir stafrænu ofbeldi og ein hafði upplifað eltihrelli.

Allir gerendurnir voru karlar og í tilfellum sex kvennanna var gerandi núverandi eiginmaður. Einn var kærasti, einn fyrrverandi kærasti, einn sambýlismaður og einn var fyrrverandi sambýlismaður. Fimm gerendanna voru af íslenskum uppruna og fimm af erlendum.

„Af hverju er ekki hægt að hafa eitthvað kerfi þegar fólk kemur hingað til lands að það þurfi að fræðast um úrræðin sem eru í boði og hvað megi og megi ekki hér á landi. Þetta væri svo mikil forvörn,“ segir Drífa.

Hún segir eðlilegt að upplýsa fólk af erlendum uppruna um það sem tíðkast hér á landi. Það sé ekki sjálfgefið að fólk viti hvað megi og megi ekki hér. „Fólk af erlendum uppruna hefur sína menningu og viðhorf og það verður að taka tillit til þess þegar fólk kemur hingað og segja þeim að hér séu mögulega önnur viðhorf.“


Tengdar fréttir

Stór hluti barna af erlendum uppruna orðið fyrir ofbeldi alla ævi

Stór hluti barna af erlendum uppruna sem dvalið hefur í Kvennaathvarfinu undanfarin tæp tvö ár hefur orðið fyrir líkamlegu ofbeldi á heimili sínu, flest alla sína ævi. Þá er félagsleg staða þeirra slæm samkvæmt rannsókn athvarfsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×