Fótbolti

Leeds vann sinn fyrsta sigur í ensku úrvalsdeildinni í 16 ár

Ísak Hallmundarson skrifar
Leeds fagna marki.
Leeds fagna marki. getty/Oli Scarff

Leeds United sigraði Fulham 4-3 í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fyrsti heimaleikur Leeds og fyrsti sigurinn í 16 ár í ensku úrvalsdeildinni.

Helder Costa kom heimamönnum yfir á 5. mínútu með fallegu skoti. Fulham fékk vítaspyrnu og jafnaði metin á 34. mínútu, en Serbinn Aleksandar Mitrovic skoraði úr spyrnunni. 

Leeds fékk vítaspyrnu á 41. mínútu, Mateusz Klich fór á punktinn, skoraði og kom Leeds yfir á nýjan leik.

Leedsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti, Patrick Bamford kom þeim í 3-1 á 50. mínútu og Helder kosta bætti síðan við öðru marki sínu og fjórða marki Leeds á 57. mínútu. 

Fulham gáfust ekki upp, Bobby Reid skoraði fyrir þá á 62. mínútu og Mitrovic minnkaði muninn í 4-3 á 67. mínútu. Fleiri mörk voru ekki skoruð og fyrsti sigur Leeds í úrvalsdeildinni síðan 2004 staðreynd. Þetta var annar leikurinn í dag sem sjö mörk eru skoruð í, fyrr í dag vann Everton 5-2 sigur á West Brom.

Leeds er með þrjú stig eftir tvo leiki en Fulham er stigalaust, búið að tapa báðum sínum leikjum í deildinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×