Öll sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu eru nú orðin heilsueflandi samfélög eftir að Grímsnes og Grafningshreppur og Skeiða og Gnúpverjahreppur bættust í hópinn. Samkvæmt nýrri könnun kemur í ljós að Sunnlendingar sofa allra mest af landsmönnum en góður svefn er eitt af grundvallaratriði góðrar heilsu.
Alma D. Möller, landlæknir og Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri heilsueflandi samfélaga hjá embætti Landlæknis heimsóttu forsvarsmenn Skeiða og Gnúpverjahrepps og Grímsnes og Grafningshrepps í vikunni þar sem þær skrifuðu undir samning við heimamenn um að sveitarfélögin gerðust heilsueflandi sveitarfélög. Það þýðir að sveitarfélögin fjögur í uppsveitum Árnessýslu eru öll orðin heilsueflandi sveitarfélög eða samfélög. Gígja segir að í dag búi 93,5% landsmanna í heilsueflandi samfélögum enda gangi verkefnið ótrúlega vel.

„Já, við erum afskaplega ánægð og þakklát hvað það hefur hlotið góðar viðtökur en það byggist fyrst og fremst á því að það eru sveitarfélögin sjálf sem sækja um að taka þátt og eru jákvæð. Það eru að myndast góðir hópar alls staðar og ólíkir aðilar að vinna saman hjá sveitarfélögunum, félagasamtökum og svo framvegis, þannig að við erum bara gríðarlega ánægð og þakklát, það eru mikil sóknarfæri í þessu,“ segir Gígja.
Gunnar Gunnarsson er verkefnisstjóri heilsueflandi sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu. Hann er mjög ánægður með hvað verkefnið gengu vel.
„Við gerum einhverskonar þarfagreiningu og finnum út hvað við viljum bæta í okkar samfélagi og eins að sýna hvað við gerum vel og segjum þá um leið, hvað gerir okkar samfélög aðlaðandi,“ segir Gunnar.
Í nýrri könnun um svefn landsmanna kemur m.a. fram að Sunnlendingar sofa lengst og allra best en það er stórt lýðheilsumál.
„Já, þið komið afskaplega vel út varðandi svefninn enda finnur maður vel að það er glatt fólk á Suðurlandi og kröftugt, þannig að það er augljóslega að skila sér,“ segir Gígja.
