Starfsmaður íbúðaleigufélagsins Naustavarar, sem þjónustar m.a. dvalarheimilið Hrafnistu, greindist með kórónuveiruna um helgina. Aðrir starfsmenn hafa þurft að fara í sóttkví vegna smitsins, auk þess sem loka hefur þurft skrifstofu Naustavarar og Sjómannadagsráðs við Brúnaveg 9.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sigurði Garðarssyni, framkvæmdastjóra Naustavarar. Þegar hefur verið haft samband við alla sem voru í nánum samskiptum við starfsmanninn frá og með síðasta föstudegi og þeir settir í sóttkví.
Þá eru tveir starfsmenn á stoðdeild Hrafnistu í Hafnarfirði, sem starfsmaðurinn hitti á föstudag, einnig komnir í sóttkví.
„Að öðru leyti hefur tilfellið ekki áhrif á starfsemi Hrafnistu þar sem viðkomandi heimsótti ekki hjúkrunardeildir heimilanna,“ segir í tilkynningu.
Naustavör byggir og rekur leiguíbúðir fyrir eldri borgara. Félagið er dótturfélag Sjómannadagsráðs.