Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri, fagnar úrskurði sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað upp í gær um að framkvæmdaleyfi fyrir vegi um Teigsskóg stæði.
Hún segir veginn vega samgöngubyltingu fyrir Vestfirði.
Upphaflega gerði Landvernd kröfuna um ógildingu framkvæmdarleyfis en í framhaldinu kærðu fjórir eigendur Grafar í Reykhólahreppi, tveir eigendur Hallsteinsness í Reykhólahreppi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands, líka fyrrgreinda ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps.
„Þetta er allavega niðurstaðan, eins og hún liggur fyrir í dag, og auðvitað geta aðilar máls skotið niðurstöðu til dómstóla. Það er réttur allra Íslendinga ef menn kjósa svo en að öðru leyti er þetta niðurstaðan í þessu máli,“ segir Bergþóra.
Hún var spurð hvenær þau hygðust hefjast handa.
„Við erum í sjálfu sér byrjuð á litlu verki í Gufufirði og gerum ráð fyrir að bjóða út þverun Þorskafjarðar í haust og hefja þar framkvæmdir í vetur. Það er verk upp á tvö og hálft, þrjú ár og á meðan á því stendur munum við klára undirbúning og hefja framkvæmdir í öðrum hlutum verksins þannig að við gerum ráð fyrri að verklok geti ef allt gengur á besta veg orðið 2024.“
Bergþóra segir Vegagerðina gera sér fulla grein fyrir viðkvæmni og fegurð svæðisins og heitir því að laga framkvæmdirnar að náttúrunni meðal annars með uppgræðslu staðargróðurs.
Vegurinn um Teigsskóg og Dýrafjarðargöngin munu stytta vegalengdina á milli Ísafjarðar og höfuðborgar um 50 km.
„Þetta er náttúrulega bylting í samgöngum á Vestfjörðum sem kemur til með að hafa afgerandi áhrif á búsetuskilyrði bæði fyrir einkaaðila og atvinnulíf“