Innlent

Lesrýmum lokað í Háskóla Íslands

Sylvía Hall skrifar
Breytingar verða á sóttvarnafyrirkomulagi Háskóla Íslands í ljósi hertari aðgerða innanlands.
Breytingar verða á sóttvarnafyrirkomulagi Háskóla Íslands í ljósi hertari aðgerða innanlands. Vísir/Hanna

Í ljósi hertra samkomutakmarkana innanlands og fjölgunar smita í samfélaginu hefur verið ákveðið að loka lesrýmum grunn- og meistaranema í Háskóla Íslands. Þá verður íþróttahúsi skólans lokað tímabundið.

Nemendur og starfsmenn sem sækja skólann eru beðnir um að koma með nesti og halda sig í einu sóttvarnahólfi. Fólk skal notast við hlífðargrímur í sameiginlegum rýmum sem flokkast sem ferðarými og á það við um ganga sem og inn- og útganga.

Nýjar undanþágur frá samkomutakmörkunum heimila þrjátíu manns í skólum á mennta- og háskólastigi. Því verður áfram hægt að halda úti verklegri kennslu við háskólann en skólinn hvetur þó til rafrænnar kennslu.

„Þessar aðgerðir taka gildi strax og bið ég ykkur góðfúslega, kæru nemendur og kennarar, að búa ykkur undir þessa breyttu tilhögun sem er tímabundin. Þessi þróun er vissulega á annan veg en við vonuðumst til en með því að stilla saman strengina náum við að halda uppi starfi og gæðum þess eins og kostur er miðað við aðstæður,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor í orðsendingu til nemenda og starfsfólks.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×