Enn er talin hætta þar sem skriða féll í Hleiðargarðsfjalli ofan við Gilsá 2 í Eyjafirði á þriðjudag. Lögreglan á Norðurlandi eystra og sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun hafa metið aðstæður á staðnum og er svæðið vaktað.
Nokkur vatnselgur hefur komið úr skriðusárinu frá því hún féll og hefur aur og grjót náð yfir Eyjafjarðarbraut.
Eyjafjarðarbraut vestari verður áfram lokuð umferð frá Sandhólum annars vegar og frá brúnni yfir Eyjafjarðará við Vatnsenda hins vegar.
Þá er rýming á bæjunum Gilsá 1, Gilsá 2 og sumarbústað við Gilsá 2 áfram í gildi. Talið er mögulegt að fleiri skriður geti fallið á svæðinu.

